141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

afgreiðsla mála á dagskrá.

[14:51]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Forseti. Hér kalla í þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs „hneyksli“ og má taka undir það. Það er gott að þeir átti sig á því að það er mikilvægt að standa við samninga sem gerðir eru. Ég fagna því sérstaklega að menn átti sig á því.

Ég vil veita forseta það ráð að þegar unnið er eftir skipulagi og samkomulagi sem gert er af hálfu allra flokkanna eða forustumanna þeirra er mikilvægt að því verði frestað ef þingmenn stjórnarflokkanna eru ekki tilbúnir til að mæla fyrir málum og hlé gert á þingfundi þar til aftur er boðað til fundar á þeim tíma sem um var samið. Það er því eins gott að þingmenn stjórnarflokkanna verði tilbúnir að mæla fyrir málum. Ég veit að þeir vilja gera allt til að greiða götu þingsins og efa ekki að þeir muni ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum. En ég mælist til þess að gert verði hlé á þingfundi á meðan ekki er unnið eftir skipulaginu.