141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

starfsmannaleigur.

606. mál
[14:54]
Horfa

Frsm. velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti velferðarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um starfsmannaleigur. Frumvarpið felur í sér mikilvæga breytingu á lögum um starfsmannaleigur sem koma munu í veg fyrir að hér á landi verði aftur vart þeirra félagslegu undirboða sem stunduð voru á uppgangstímanum þar sem starfsmenn starfsmannaleigna fengu ekki greidd samsvarandi laun og starfsmenn opinberra fyrirtækja og í sumum tilfellum afar lág laun. Með samþykkt frumvarpsins verða tryggð réttindi allra starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði og jafnframt áréttuð meginregla íslensks vinnuréttar um ótímabundna ráðningarsamninga starfsmanna beint við vinnuveitendur sína. Jafnframt er viðurkennt að þörf geti verið á þeim sveigjanleika sem starfsmannaleigur bjóða upp á, þær verði þá aðeins nýttar í þeim tilgangi en ekki til að greiða starfsfólki lægri laun eða skerða réttindi þeirra með öðrum hætti.

Frumvarp þetta er unnið í náinni samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og var sátt um það á milli aðila við gerð kjarasamninga að frumvarp í þessa veruna yrði lagt fram. Um málið ríkti alger sátt í nefndinni. Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Þuríður Backman, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Magnús Orri Schram, Oddný G. Harðardóttir, Einar K. Guðfinnsson, Unnur Brá Konráðsdóttir og Birkir Jón Jónsson, en Guðmundur Steingrímsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.