141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

neytendalán.

220. mál
[15:03]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég hef verulegar áhyggjur af þessu. Ég tel að ekki sé gætt nægilega vel að fasteignalánum með þessari löggjöf. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að þetta er skárra en ekki neitt eins og svo margt sem við höfum verið að afgreiða á þessu þingi á kjörtímabilinu, en ég hef áhyggjur af því að við teljum að þetta nægi og það verði langt í að við sjáum hér almenn lög um fasteignalán.

Hv. þingmaður vísar til þess að verið sé að vinna að innleiðingu á tilskipun Evrópusambandsins varðandi fasteignalán. Ég vil benda á að Evrópusambandið hefur mjög lengi unnið að því að búa til samræmd lög eða tilskipun um fasteignalán. Það hefur ekki gengið eftir svo ég viti til. Þess vegna er einkar brýnt að við fáum frumvarp þess efnis í þinginu. Talað var um að það kæmi inn frumvarp á þessu þingi sem mundi tryggja betur hagsmuni þeirra sem taka lán. Þar hefur verið bent á atriði eins og veðhlutfall, lengd lána, álag, hvers konar fjármálastofnanir megi veita húsnæðislán, hvernig meta eigi markaðsvirði eigna þegar kemur að því að ákveða hversu mikið má lána og hvernig megi fjármagna húsnæðislán. Þetta eru allt þættir sem vantar inn í þessa löggjöf. Ég mundi raunar hvetja til þess að það verði forgangsverkefni hjá öllum stjórnmálaflokkum að leggja til slíkt frumvarp á nýju kjörtímabili.