141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

neytendalán.

220. mál
[15:11]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér erum við í 3. umr. frumvarps til laga um neytendalán sem er ætlað að koma í staðinn fyrir núgildandi lagavernd vegna neytendalána. Þetta er í annað skipti sem þetta mál er lagt fram og það hefur hlotið nokkuð ítarlega umfjöllun hjá nefndinni. Við 2. umr. var ég flutningsmaður að nokkrum breytingartillögum, dró þær til baka til 3. umr., og stend núna að breytingartillögum eða flyt sjálf tillögur sem eru viðbrögð við þeirri umfjöllun sem ég fékk um þær milli 2. og 3. umr.

Sú breytingartillaga sem ég vil nefna fyrst tengist mjög þeirri umræðu sem við áttum fyrr í dag um frumvarp um vaxtabætur til hins svokallaða lánsveðshóps. Í því frumvarpi sem við ræðum hér er enn þá svigrúm fyrir lántakendur að taka lán og lánveitendur að veita lán þrátt fyrir að lántaki hafi ekki uppfyllt skilyrði sem varða lánshæfis- og greiðslumat. Það sem meira er er að til að óheimilt sé að veita lánið er ekki bara gerð krafa um að lántakandinn hafi fallið á lánshæfis- og greiðslumati heldur þarf mat að hafa leitt í ljós að hann hafi „augljóslega“ ekki burði til þess að standa í skilum, eins og það er orðað. Ég legg til að orðið augljóslega falli á brott þannig að það verði mjög skýrt hvað þetta þýðir frá hendi ráðherra sem á að setja reglur um hvernig eigi að framkvæma á lánshæfis- og greiðslumat og ekki leiki neinn vafi á því.

Síðan er hér tillaga um að ekki sé hægt að koma með önnur veð ef viðkomandi getur ekki staðið í skilum með lánið. Þarna er verið að reyna að taka að einhverju leyti á þeim vanda sem hefur að mínu mati verið mjög séríslenskur, en allt að 10% af þeim sem hafa keypt húsnæði að undanförnu hafa fengið lánuð veð þar sem hefur verið skortur á eigin fé eða greiðslugetu.

Þetta snýr líka að því sem ég nefndi í andsvari við hv. þm. Helga Hjörvar og kom líka fram í samtali mínu við hv. þm. Pétur Blöndal að í einhverjum tilvikum, t.d. þegar um lægri upphæðir er að ræða, er vel skiljanlegt að hægt sé að koma með einhvers konar tryggingu fyrir greiðslum. Ég verð þó að segja að í ljósi reynslunnar verður að setja mjög stórt spurningarmerki við það hvernig staðið hefur verið að þessu hvað varðar húsnæðislánin. Þetta er raunar þáttur sem ég tel að við hefðum þurft að skoða miklu betur.

Í nefndaráliti mínu við 2. umr. fór ég í gegnum nýja reglu sem fjármálaneytendastofan, ef maður þýðir heiti stofnunarinnar orðrétt, í Bandaríkjunum sem er tiltölulega nýlega orðin til var að kynna og samþykkja í janúar á þessu ári. Þetta er hin svokallaða „Ability-to-pay“-reglan um húsnæðislán. Þar er verið að reyna að setja skýrar reglur og kröfur til þeirra sem fá á annað borð lán og þeirra sem veita lán svo að tryggt sé að lántakendur fái ekki lán nema þeir hafi raunverulega greiðslugetu til að borga það. Þetta er byggt á biturri reynslu Bandaríkjamanna af svokölluðum undirmálslánum þar sem algengt var að menn greiddu ekki afborganir, voru jafnvel með lægri vexti á upphafstíma lánsins og þar af leiðandi komust lántakar í gegnum greiðslumat þrátt fyrir að greinilegt væri að þeir gætu ekki staðið í skilum með lánið þegar greiðslubyrðin kæmi inn af fullum þunga. Með bandarísku reglunum er reynt að tryggja að svo verði ekki því að það er ekki bara reynsla Bandaríkjamanna heldur margra þjóða, þar á meðal okkar, að skuldsetning heimila við húsnæðiskaup skiptir verulega miklu fyrir fjármálalegan stöðugleika. Ég hef því töluverðar áhyggjur af þessum lið.

Síðan er líka annað sem við ræddum aðeins og ég kallaði eftir upplýsingum um en okkur tókst kannski ekki að ræða fyllilega í nefndinni á milli 2. og 3. umr. og alls ekki eftir 1. umr. að mínu mati. Það er hvað gerist ef lántaki uppfyllir ekki reglur sem settar eru um lánshæfis- og greiðslumat en fær samt sem áður lánið, kemur heldur ekki með veð en fær samt sem áður lánið. Þetta er skilið eftir í athugasemdum með frumvarpinu þegar það var lagt fram og sagt að þetta þurfi að skýrast með dómaframkvæmd. Þarna sé um að ræða einkarétt og einkaaðila sem takast á sem neytandi og lánveitandi.

Það hefur sýnt sig mjög greinilega á síðustu árum þegar menn hafa núna kannski fyrst verið að láta reyna á ýmsa þætti sem varða kröfurétt, samningarétt, neytendarétt, sem ekki hefur reynt á áður fyrir íslenskum dómstólum, að það felst mikil óvissa í því að treysta á dómaframkvæmdina. Það hefur sýnt sig, að minnsta kosti í tengslum við ábyrgðarmenn, að það hefur verið nokkuð skýrt að ef menn hafa ekki farið rétt að og lántaki hefur ekki uppfyllt skilyrði lánshæfis- eða greiðslumats og ábyrgðarmaður ekki verið upplýstur um það hefur ábyrgð ábyrgðarmannsins fallið niður gagnvart fjármálafyrirtækinu. Menn hafa síðan bent á að munurinn á ábyrgðarmanni annars vegar og skuldara hins vegar sé sá að skuldari hefur fengið fjármuni frá lánveitandanum. Það er því alveg skýrt að þar er krafa fyrir hendi og þar af leiðandi krafa um að þessir fjármunir séu greiddir til baka á einhvern hátt.

Ég hefði gjarnan viljað að við hefðum getað farið betur í gegnum það hvernig við sem löggjafarvald teljum að væri best að taka á þessu. En ef þetta verður samþykkt svona óbreytt er þetta atriði enn á ný skilið eftir í höndum dómstóla. Þá erum við kannski að vissu leyti að viðurkenna að þetta sé jafnvel bara of flókið og tíminn of stuttur og svona verði þetta bara að vera.

Ég legg hins vegar fram breytingartillögu þar sem segir, með leyfi forseta:

„Gæti lánveitandi ekki réttra aðferða við framkvæmd lánshæfis- eða greiðslumats er lánssamningur sem á því er reistur ógildanlegur að kröfu neytanda.“

Orðin „að kröfu neytanda“ eru lykilatriði hér. Ef neytandi telur rétt að slíta samningssambandinu á þeim grunni að ekki hafi verið farið rétt að stendur eftir krafan um að borga það sem eftir stendur af láninu. Þá er hægt að slíta samningssambandinu að ósk neytanda.

Ef við hefðum getað gefið okkur betri tíma í þetta mál hefðum við hugsanlega getað fundið betri leið til að taka á þessu, skýrari leið, en þessi tillaga er að minnsta kosti viðleitni til þess.

Ég er líka 1. flutningsmaður að breytingartillögu um flýtimeðferð varðandi lögmæti verðtryggingar í lánssamningum. Það hefur margoft komið fram fyrir nefndinni og líka, eins og það var orðað svo pent í áliti meiri hlutans, „á öldum ljósvakans“, að það hafa komið fram sjónarmið um að þeir lántakar sem tóku lán tryggð með vísitölu neysluverðs hafi með hliðsjón af þeim fjölmörgu dómum sem fallið hafa um ólögmæti gengistryggingar leitað leiða til þess að vefengja lögmæti sinna lána vegna þeirrar kaupmáttarskerðingar sem varð í kjölfar hrunsins.

Ég held að við öll sem sitjum á Alþingi og þjóðin væntanlega séum sammála um að mikilvægt sé að fá úr þeim ágreiningsmálum skorið sem hafa komið upp um lögmæti verðtryggingar. Þessi óvissa er óásættanleg. Hér er lagt til að hyggist annar hvor aðili höfða mál vegna slíks ágreinings geti hann óskað eftir því að málið sæti flýtimeðferð eftir ákvæðum 19. kafla laga um meðferð einkamála. Þetta er bráðabirgðaákvæði þannig að þarna er horft til þeirra mála sem þegar eru farin af stað og ætti að geta skýrt þá stöðu hvort um sé að ræða raunverulegt ólögmæti eða ekki, hvort eitthvað þurfi að betrumbæta í framkvæmd, reglugerðum eða lögum hvað verðtrygginguna varðar.

Svo vil ég að sjálfsögðu ítreka og minna á hvað lögmætið varðar að það ætti kannski að vera ónauðsynlegt að hafa of miklar áhyggjur af því til framtíðar því að eins og flokksþing framsóknarmanna hefur ályktað um hyggjumst við afnema verðtryggingu á neytendalánum til framtíðar.

Síðan er þriðja breytingartillagan sem ég mundi vilja renna í gegnum. (Gripið fram í: …til framtíðar?) Í lögum, já. Svo leiðréttum við hins vegar forsendubrestinn. Það er mikilvægt að menn hafi góðan skilning á íslensku máli hér, virðulegi forseti.

Þriðja breytingartillagan varðar 26. gr. og það þak sem verið er að leggja til á árlega hlutfallstölu kostnaðar á neytendalánum. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Árleg hlutfallstala kostnaðar á neytendalánum má ekki nema meira en 60 hundraðshlutum.“

Lilja Mósesdóttir er 1. flutningsmaður þessarar breytingartillögu og ég er meðflutningsmaður að henni. Hún gengur út á að ekki sé um að ræða breytilegt þak á árlegri hlutfallstölu kostnaðar á neytendalánum heldur fast. Í tillögu meiri hlutans og í frumvarpinu er gert ráð fyrir að stýrivextir séu hluti af þessu þaki og þá erum við einhvern veginn komin inn með verðbótaþátt vaxta eins og verðtryggingin hefur oft verið kölluð.

Mér þótti einkar áhugavert í nýjasta riti Neytendasamtakanna að ég held að þau tóku saman upplýsingar hjá systursamtökum þeirra í Evrópu um hver væru lög eða hvaða reglur giltu í nágrannalöndunum um þak á árlegri hlutfallstölu kostnaðar. Það var mjög ólíkt á milli landa, það er alveg rétt, en það sem mér fannst áhugavert var að í þó nokkrum löndum voru menn með mismunandi þak á mismunandi tegundir lána. Það kemur kannski inn á það sem ég hef gert athugasemdir við að við erum búin að setja undir sömu löggjöfina flestar tegundir af lánasamningum sem snúa að neytendum og setjum sama þakið á þá alla.

Hvort þetta sé rétta aðferðin er nokkuð sem við hefðum kannski átt að skoða betur í vinnu nefndarinnar. En ég hafna því algjörlega að það sé breytilegt þak fyrir öll lánin. Með þessari tengingu nánast við stýrivextina, eins og mætti orða það, erum við komin með verðbótaþátt vaxta, verðtryggingu raunar, á árlega hlutfallstölu kostnaðar. Það hefur kannski eitthvað með það að gera, virðulegi forseti, að við virðumst vera óskaplega föst í því að reyna að verðtryggja allt. Það má sjá í nýlegu frumvarpi sem hv. þingmenn Lilja Mósesdóttir og Margrét Tryggvadóttir stóðu að sem gengur út á að reyna að hreinsa sem mest vísitölutengingar út úr íslenskri löggjöf. Ég veit að hv. þm. Helgi Hjörvar hefur líka bent á að þær mættu vera með öðrum hætti, þessar tengingar við verðtryggingu í fjölmörgum lagabálkum, en einn sá stærsti þeirra er náttúrlega fjárlögin sem við afgreiðum hér á hverju ári.

Og hér kemur þetta enn á ný fram. Það er kannski ekki að undra ef við væntum þess öll að það verði verðbólga þá fáum við þær væntingar okkar uppfylltar á hverju einasta ári.