141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

neytendalán.

220. mál
[15:25]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir mjög ítarlega ræðu og þar sem hún kynnti nokkur mál sem hún flytur, sum með öðrum. Varðandi þá breytingartillögu að orðin „að viðbættum stýrivöxtum“ falli burt get ég eiginlega fallist á að til einföldunar væri betra að hafa þetta bara alltaf sömu töluna. Stýrivextir dingla kannski frá 3%, 4% upp í 7 til 8% og það er ekkert sem skiptir afgerandi máli þarna, þetta mælir á vissan hátt verðbólgu eins og hv. þingmaður nefndi.

Það sem ég vildi spyrja um er ógildanleiki kröfu ef ekki er gætt réttra aðferða. Þegar menn veita ábyrgð fá þeir enga peninga heldur ábyrgjast þeir bara að greiða. Ef það er ekki gert rétt fellur ábyrgðin niður, þá greiðir sá sem fékk lánið. Spurningin er sú: Hvað þýðir þetta fyrir þann sem hefur tekið lán að hann geti gert samninginn ógildanlegan? Er hann þá laus við að borga eða verður hann að borga samninginn og greiða hann upp eða hvað? Er þetta eitthvað atriði í sjálfu sér? Hann getur yfirleitt alltaf borgað samninginn upp, þannig að hverju breytir þetta?

Svo er það tillagan um ósk eftir flýtimeðferð. Ég held að allir geti óskað eftir flýtimeðferð, þeir bara fá hana ekki. Spurningin er sú hvort þetta sé nægilegt, hvort það þurfi ekki að standa að þeir „skuli fá flýtimeðferð“ en ekki bara að þeir óski eftir henni. Ég get óskað eftir hverju sem ég vil og stundum fæ ég það og stundum fæ ég það ekki. Það er spurning hvort ekki þurfi að umorða þessa breytingartillögu.