141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[15:53]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Eins og komið hefur fram ræðum við breytingu á lögum um opinbera háskóla og felur breytingin sem um ræðir einkum tvennt í sér. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um opinbera háskóla sem fela í sér að starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla – Háskólans á Hólum verður felld undir lög um opinbera háskóla. Einnig er lagt til að lög um búnaðarfræðslu falli brott og síðan er verið að lögfesta samstarf opinberra háskóla sem hefur verið kallað samstarfsnet háskólanna eða háskólanet.

Í fyrstu vil ég segja varðandi umræðuna sem verið hefur í gangi um seinasta þáttinn, sameiningu eða samstarf opinberra háskóla, að sá sem hér stendur hefur ávallt verið mjög hrifinn af samstarfsneti háskólanna. Ég þekki það ágætlega, ég var í háskólaráði Landbúnaðarháskólans í nokkur ár og sat líka í talsvert langan tíma í háskólaráði skólans sem formaður stúdentaráðs Landbúnaðarháskóla Íslands meðan ég var í námi.

Samstarfsnetið milli opinberu háskólanna hefur gengið gríðarlega vel og um það ríkir mikil og góð sátt. Ég held að mjög jákvætt sé að lögfesta það með þessum hættti og það slær óneitanlega á þær umræður sem hafa verið í gangi, og hafa ekki endilega átt við rök að styðjast, um að nauðsynlegt sé að sameina alla háskólana í landinu í einn opinberan háskóla. Háskólarnir geti með samstarfinu haldið sjálfstæði sínu og sóknarmöguleikum en aukið samstarf í þeim þáttum þar sem samlegðaráhrifin eru mikil.

Ég man eftir því að þegar umræða kom upp um að sameina ætti alla háskóla í lok síðasta kjörtímabils voru á því mjög skiptar skoðanir. Eftir að það hafði verið slegið út af borðinu og núverandi menntamálaráðherra ákvað að búa til samstarfsnet háskólanna var enn á ný reynt að hefja sameiningar háskóla, þá Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Settur var upp sérstakur samstarfshópur þar að lútandi og þegar farið var að skoða málið voru niðurstöður í skýrslu sem þá var gefin út að samlegðaráhrifin yrðu kannski ekkert mjög mikil af sameiningu og það yrði síður en svo um fjárhagslegan ávinning að ræða umfram það sem þegar væri búið að ná fram með samstarfsneti háskólanna.

Ég held því að við eigum að halda áfram í þá átt og fagna því mjög að verið sé að lögfesta samstarfsnet háskólanna. Við eigum að leita eftir því að auka og efla samstarf háskólanna. Það má líka velta fyrir sér auknu samstarfi við háskólana út á við við að fá erlenda nemendur hingað til lands, auknu samstarfi á sviði rannsókna, auknu samstarf á sviði sameiginlegra kúrsa o.s.frv. Samstarfsnetið hefur reynst gríðarlega vel og forsvarsmenn allra háskóla hafa tekið mjög vel í það, hvort sem það er Háskóli Íslands eða háskólarnir á landsbyggðinni, landbúnaðarháskólarnir tveir eða Háskólinn á Akureyri, samstarfsnetið hefur gengið mjög vel í alla staði.

Þá að öðrum þætti sem kemur fram í málinu og felur í sér að starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla verði felld undir lög um opinbera háskóla. Það hefur verið rakið hér, er rakið í nefndaráliti og af menntamálaráðuneytinu og fleirum, að í sjálfu sér er sú aðgerð að fella háskólana tvo undir sömu lög ekkert óeðlileg. Ég vil þó benda á að verið er að fella niður lög um búnaðarfræðslu og það eru margir sem hafa áhyggjur af ákveðnum þáttum í tengslum við þær breytingar. Landbúnaðarháskóli Íslands heldur úti sérstöku búfræðinámi og garðyrkjunámi að Reykjum í Ölfusi og búfræðinámi á Hvanneyri. Áhyggjur manna hafa meðal annars beinst að því, á það er bent í nefndaráliti meiri hlutans og það hefur komið fram í umsögnum gesta, að með þeim breytingum sem er verið að gera geti háskólinn tapað ákveðnum tengslum við grunnræturnar í atvinnulífinu.

Ég tek undir þær áhyggjur að ákveðnu leyti. Ég held að mjög mikið atriði sé fyrir þá stofnun að vera í góðum tengslum við atvinnulífið, við þær atvinnugreinar sem er verið að mennta fólk í. Ég vil benda á að alllíklegt er, maður sér fram á það, að á næstu árum verði gríðarleg sóknarfæri fyrir okkur Íslendinga í þeim atvinnugreinum, eða fögum, sem eru kenndar í háskólunum tveimur, ferðaþjónustu, fiskeldi, hrossarækt, almennri landbúnaðarfæði o.s.frv. Það liggur fyrir að við eigum mjög mörg sóknarfæri á þeim sviðum sem við höfum ekki nýtt. Ég vil í því sambandi benda á tillögu sem við framsóknarmenn höfum nýlega lagt fram um að nýtt séu aukin sóknarfæri Íslands í matvælaframleiðslu.

Það er nefnilega svo að heimurinn breytist gríðarlega hratt og við Íslendingar eigum mikið af ræktunarlandi. Gert er ráð fyrir því að á Íslandi séu um 650 þús. hektarar ræktunarlands og við nýtum einungis um 150–180 þús. hektara af því landi. Til samanburðar má taka nágrannalönd eins og Noreg en gert ráð fyrir því að þeir eigi um milljón hektara ræktunarlands og nýti um 95% af því. Með hækkandi matvælaverði skapast miklir möguleikar fyrir íslenskan landbúnað sem Landbúnaðarháskóli Íslands, af því að ég þekki hann betur, og eins Hólaskóli – Háskólinn á Hólum hafa verið að horfa til til þess að nýta í auknum mæli og sjá gríðarleg sóknarfæri í uppbyggingu háskólanna. Ég tek því að vissu leyti undir þá gagnrýni frumvarpsins um leið og ég lýsi yfir fullum stuðningi við það sem snýr að samstarfi opinberra háskóla með háskólanetinu.

Ég ætla ekki að hafa ræðuna mikið lengri en vil þó segja að háskólakerfið og menntakerfið gegnir gríðarlega miklu hlutverki í því að byggja hér upp hagvöxt og nýsköpun í landinu og það er mjög mikilvægt að við eflum það og að háskólakerfið eflist. Ég held að sá þáttur sem er í frumvarpinu og snýr að samstarfsneti háskólanna eða háskólanetinu sé einmitt skref í þá átt að efla opinbera íslenska háskóla og fagna ég þeim hluta frumvarpsins mjög.