141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

sveitarstjórnarlög.

449. mál
[16:05]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Í 2. umr. um þetta mál hér fyrr í vikunni lýsti ég þeim sjónarmiðum mínum að ég styddi og væri sammála þeim viðhorfum sem hefðu birst í umsögn um málið frá nokkrum sveitarfélögum, meðal annars Dalvíkurbyggð, um að tilefni væri til þess að veita sveitarstjórnum heimild til að víkja frá almennum viðmiðum að því er varðar kosningarrétt í íbúakosningum. Hér er ekki um að ræða viðmiðun varðandi kosningar í sjálfar sveitarstjórnirnar heldur eingöngu íbúakosningar um tiltekin mál. Tilefni gæti einkum verið til þess ef sveitarfélög væru að efna til íbúakosninga um mál sem varða ungt fólk, þá ætti að vera að minnsta kosti heimild til þess fyrir sveitarstjórnina að miða kosningaaldur við 16 ár. Þetta sjónarmið er reifað í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar þó að hún hafi ekki gert þessa tillögu að sinni, en ég veit að því var tekið jákvætt á vettvangi nefndarinnar, að minnsta kosti af sumum nefndarmönnum.

Ég hef leyft mér að flytja breytingartillögu við þetta mál um að, með leyfi forseta:

„Á eftir 4. efnismgr. 1. gr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:

Sveitarstjórn er heimilt, að fengnu samþykki ráðherra, að miða kosningaaldur í íbúakosningu við 16 ár.“

Hér er um að ræða bráðabirgðaákvæði, tilraunaverkefni, þróunarverkefni til einhverra ára. Ég ætla að leyfa mér að leggja til að sveitarstjórn geti nýtt sér þetta ákvæði ef hún svo kýs sjálf, það er undir henni komið hvort hún vill gera það. Ég ímynda mér til dæmis að hún mundi ekki beita þessu ákvæði ef verið væri að kjósa um áfengisútsölur, en kannski ef verið væri að greiða atkvæði um frístundamiðstöðvar eða eitthvað sem lýtur að ungmennastarfi. Þá er í hennar sjálfsvald sett að nýta sér það, en ef þetta yrði samþykkt mundi hún eftir sem áður þurfa að fá samþykki ráðherra fyrir því.

Ég mæli fyrir þessari breytingartillögu við þetta mál við þessa umræðu.