141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[17:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

(Forseti (ÁÞS): Forseti vekur athygli á því að enn er eitthvert ólag á klukkunni í ræðupúltinu og hún passar ekki við klukkuna hér í forsetastóli. Forseti biður hv. þingmann engu að síður að virða tímamörk, 2 mínútur.)

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að Íslendingar hafa í gegnum tíðina staðið dyggilega við bakið á sínum menntastofnunum og ekki síst þeim menntastofnunum sem er kannski helst um að ræða. Það sem við alþingismenn hljótum að gera þegar við horfum til framtíðar er að velta fyrir okkur þeim upplýsingum sem við höfum fengið víða að. Ekki fyrir svo löngu síðan, það er kannski ár síðan, var fundur hér þar sem sérfræðingur frá Noregi ræddi um framtíðina og eftirspurn í matvælum. Það kom fram í fyrirlestri hans að eftir um það bil 30–40 ár er mikil hætta á því að örfá lönd í heiminum verði sjálfum sér nóg um matvæli, þ.e. að þau framleiði nægilega fyrir sínar þjóðir og til útflutnings. Það voru lönd Norður-Evrópu, eitt land í Suður-Ameríku og Norður-Ameríka.

Það segir okkur að sjálfsögðu að mikil tækifæri eru fyrir Ísland sem hefur gnótt af landrými, hreinu vatni, lofti o.s.frv. Er það ekki okkar sameiginlega framtíðarsýn að gera það sem við getum til að efla fræðslu, efla nám tengt landbúnaði og efla um leið tækifæri og finna tækifæri fyrir þá er stunda landbúnað til að gera enn betur og framleiða enn meira? Það hlýtur því að vera ákjósanlegt fyrir Íslendinga og þá sem stunda nám við landbúnaðarháskólana á Íslandi að tengjast menntastofnunum erlendis og komast í samband við þær, ég veit að það samband er nú til staðar í dag. Mig langar í seinna andsvari að spyrja hv. þingmann hvort (Forseti hringir.) hann sé ekki sammála þeirri framtíðarsýn sem sá er hér stendur lagði fram.