141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[17:46]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög þörf ábending frá hv. þingmanni sem ég veit að talar af mikilli þekkingu á því sviði. Það er alveg hárrétt að fámenn þjóð sem hefur tekið þá ákvörðun að setja ekki allt sitt í einn eða tvo háskóla heldur hefur byggt upp kerfi með fleiri háskólum og háskólastofnunum á mikið undir því að tryggt sé að allt lagaumhverfið sé þannig að hægt sé að nýta þær stofnanir sem best og að allir fjármunir nýtist sem best.

Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni hvað það varðar, að sjálfsögðu hljótum við að vilja hafa það þannig að ekki sé bara samræmi í lagaumhverfi á milli opinberu háskólanna en síðan ekki við háskólana sem eru einkareknir eða sjálfseignarstofnanir eða stofnanir sem eru ekki reknar með hagnaðarsjónarmiðum, eða hvað það nú er, jafnvel þótt um væri að ræða skóla sem væri rekinn sem venjulegt fyrirtæki. Auðvitað á að leitast við að hafa það þannig að sem mest samstarf náist fram, mest samnýting, svo við nýtum fjármunina sem best. Það er líka takmarkaður fjöldi fræðimanna, takmarkaður fjöldi kennara og vísindamanna sem við búum við á hverju sviði. Að sjálfsögðu eigum við að hafa það sem auðveldast fyrir bæði nemendur og kennara að fara á milli stofnana og nýta sér mismunandi námskeið.

Ef við höfum tekið þá ákvörðun að hafa fleiri en einn eða tvo skóla eigum við um leið að taka ákvörðun um að framfylgja stefnunni með líkum hætti og hv. þm. Lilja Mósesdóttir lýsti áðan. Það má kannski segja að það sé næsta skref í því. Það er þó alltaf eitt vandamál sem við þurfum að velta fyrir okkur sem er hvernig við látum ganga saman annars vegar kerfi þar sem fólk borgar skólagjöld og hins vegar þar sem ekki eru greidd skólagjöld, hvernig menn geta farið þar á milli. Það er auðvitað ákveðið vandamál eðli málsins samkvæmt.