141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[17:48]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það voru reyndar skólagjöldin sem öftruðu því að hægt væri að bjóða upp á sameiginleg námskeið fyrir nemendur Háskólans á Bifröst og landbúnaðarháskólans. Ég trúi því eins og hv. þingmaður að það sé vandamál sem hægt er að leysa ef viljinn er fyrir hendi. Það verður að leysa það, sérstaklega með hagsmuni landsbyggðarinnar að leiðarljósi. Mér finnst þessi tvískipting bitna mest á landsbyggðinni þar sem fjarlægðir gera það að verkum að oft er hagstæðara að eiga samstarf við stofnun sem er opinber þegar um er að ræða sjálfseignarstofnun, eins og í Borgarfirði, en að eiga samstarf við Háskólann í Reykjavík sem er staðsettur mun lengra í burtu.

Þess vegna er nauðsynlegt að tryggja sambærilegt lagaumhverfi þeirra samkeppnisstoða innan háskólageirans, sem ég kalla, annars vegar opinberu háskólana og hins vegar einkareknu háskólana eða sjálfseignarstofnana. Það er ekki nóg að tryggja að háskólanemendur geti flætt þar á milli þannig að myndist einhver samkeppni um háskólanemendur, það þarf líka að tryggja að kennarar flæði á milli og þar er mikið verk óunnið. Eins og staðan er í dag þarf kennari sem kennir við sjálfseignarstofnun í rauninni að byrja upp á nýtt vilji hann færa sig til dæmis yfir í Háskóla Íslands þar sem Háskóli Íslands er með sínar reglur og tekur ekki einu sinni dómnefndarálit frá öðrum skóla gilt og krefst þess að viðkomandi kennari fari í gegnum sitt matsferli.