141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[17:53]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum um frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008, um landbúnaðarháskóla og samstarf opinberra háskóla. Mig langar í upphafi ræðu minnar að koma inn á það sem hv. þingmenn Illugi Gunnarsson og Lilja Mósesdóttir ræddu um, um samstarfið milli opinberu skólanna og þeirra skóla sem eru sjálfseignarstofnanir. Mér fannst það mjög áhugaverð ábending sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir kom með í sambandi við umræðu um sameiningu Háskólans á Bifröst og Háskólans í Reykjavík, vegna þess að þeir eru sjálfseignarstofnanir og starfa á þeim vettvangi, hvort ekki væri hægt að auka samstarf sjálfseignarskólanna sem eru á sama svæði. Væri ekki hægt að taka þá umræðu og útfæra þær tillögur sem hv. þingmaður kom inn á? Mér fyndist mjög áhugavert ef umræðan þróaðist í þá átt.

Það kom líka í ljós að þegar rætt var um sameiningu Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Bifröst og farið yfir stöðuna þá fannst heimamönnum raunar eins og það ætti að leggja niður aðra stofnunina, þ.e. Háskólann á Bifröst og þess vegna flosnaði upp úr því samstarfi og ekkert varð af því.

Það er líka athyglisvert að þegar farið var af stað með samstarfsnet háskólanna fyrir tveimur árum voru settar í það 150 millj. kr. á ári í tvö ár. Það var tímabundið verkefni og kynnt þannig í fjárlaganefnd af hálfu hæstv. menntamálaráðherra. Með því átti að auka samstarf opinberu háskólanna, spara fjármagn og hafa hlutina markvissari og betri, t.d. varðandi innritun o.s.frv. Það komu strax athugasemdir frá háskólunum sem voru sjálfseignarstofnanir, hvort þeir gætu ekki komið að þessu neti líka og nýtt sér samstarfið. Það var rætt um að þetta yrði skoðað og kannað en síðan gerist það núna þegar tveggja ára tímabundna verkefninu er lokið að það kemur aftur fram tillaga um áframhaldandi tveggja ára tímabundið verkefni, þ.e. árið 2013 og fara inn á árið 2014 og setja 150 millj. kr. til viðbótar í tvö ár. Ég var mjög gagnrýninn á þetta og fannst þetta dálítið sérkennilegt í ljósi þess að verkefnið var fyrst kynnt sem tímabundið í tvö ár og síðan átti því að ljúka. Nú kemur fram tillaga um að halda áfram með sama hætti, áframhaldandi verkefni í tvö ár. Kostnaðurinn við samstarfsnetið er þá kominn í 600 millj. kr.

Ég gerði athugasemdir við þetta og spurði spurninga um verkefnið í hv. fjárlaganefnd en það næsta sem ég sé er að uppbygging á þessu samstarfsneti er bara sett inn í lögin. Ég geri mér grein fyrir því og fékk skýringar á því að það kostar auðvitað meira í upphafi að koma netinu á fót en síðan er gert ráð fyrir að það kosti um 50 millj. kr. á ári að reka það eftir árið 2014. Ég velti því fyrir mér af hverju tíminn hafi ekki verið nýttur meðan á verkefninu stóð til að útfæra það þannig að sjálfseignarstofnanirnar gætu komið inn í það til viðbótar. Þótt þeir skólar séu reknir með öðrum hætti og fái greiðslur miðað við svokallað nemandaígildi er þetta auðvitað það sem við þurfum að gera, að reka þessa skóla alla saman.

Það hefur verið umræða um sameiningu háskóla og hvort við í þessu litla landi getum verið með sjö háskóla. Það hefur bara verið yfirborðsumræða, en kannski hefur hún verið dýpri hér áður og hugsanlega í hv. allsherjar- og menntamálanefnd, ég þekki það ekki, ég á ekki sæti þar. En í tengslum við þá umræðu spyr maður sig þeirrar spurningar sem ég spurði til dæmis í nefndinni: Er skynsamlegra, í stað þess að fara í þetta samstarfsnet, að taka umræðuna um sameiningu? Gætum við hlúð betur að háskólunum með því að fara í sameiningar?

Ég hef ekki þekkingu á því hvort það hefði skilað okkur meiru. Var eitthvað í hættu? Þess vegna spurði ég og kallaði eftir svari við þessari spurningu: Erum við að setja samstarfsnetið af stað til þess að losna við og kannski forðast dýpri umræðu um sameiningu háskóla? Svarið var nei, það er ekki þess vegna, þetta er tímabundið verkefni. Eins og ég hef rakið átti þetta tímabundna verkefni að kosta 300 millj. kr. Nú er það komið í 600 millj. kr. og mun síðan kosta 50 millj. kr. Það kallar auðvitað á ákveðnar spurningar og þetta net hefur ekki verið þróað áfram í þá veru að háskólar sem eru sjálfseignarstofnanir gætu komið að því, sem mundi fela í sér sparnað, .

Það voru líka athyglisverðar ábendingar frá hv. þm. Lilja Mósesdóttir um að lagaumhverfið væri það flókið og snúið að ekki væri einu sinni hægt að hafa sameiginleg námskeið hjá opinberu háskólunum eða sjálfseignarstofnunum. Maður hlýtur að spyrja sig hvort ekki sé hægt að koma á samstarfi þarna því að það blasir við að það er skynsamlegt.

Ég man eftir því að haustið 2009 við fjárlagagerðina fyrir árið 2010 kom rektor Háskóla Íslands til okkar í nefndinni og hafði miklar áhyggjur af fjárhagsmálum, en við vitum að við erum frekar undir marki á háskólastiginu og við vitum hvað vantar upp á það sem við setjum í háskólamenntunina miðað við þau lönd sem við berum okkur saman við. Rektorinn sagði að með því að sameina háskólana tvo, hvorn sínum megin við flugbrautina, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík, væri hægt að spara 900 millj. kr. Hvatning hennar til hv. fjárlaganefndar var þessi: Skoðið þennan möguleika því að hættan er sú að það verði búið að skera of mikið flatt niður í kerfinu sjálfu. Það eru ákveðnir þröskuldar þar sem við megum ekki fara niður fyrir. Þetta voru ábendingar hennar. Við ræddum þetta svo sem ekkert frekar í hv. fjárlaganefnd því eins og allir vita heyra málefni háskólanna ekki undir hana nema það sem snýr að fjárlögum og fjárhagsmálum þeirra skóla, ekki það sem snýr að innviðum og málaflokknum sem slíkum. Hann heyrir að sjálfsögðu undir allsherjar- og menntamálanefnd en er ekki okkar verkefni í fjárlaganefnd.

Síðan veltir maður því fyrir sér hvort við gætum gert betur með sameiningu og hvort við séum að forðast umræðuna um hana. Menn hafa bent á að í mun stærri og fjölmennari löndum eru miklu, miklu færri háskólar og að við notum allt of mikið fjármagn í yfirstjórnina og þar fram eftir götunum. Eins og ég sagði áðan hef ég ekki forsendur til að skera úr um það en hins vegar finnst mér að það hljóti að eiga að skoða þá hluti mjög vandlega af fólki sem þekkir til.

Það er mín skoðun, eftir að hafa kynnt mér þetta frumvarp, sem og nefndarálitið og breytingartillögurnar, að það sé til góða en ég held hins vegar að það sé mjög þörf ábending sem kom fram hjá hv. þm. Lilju Mósesdóttur að skoða samhliða löggjöf sjálfseignarstofnananna, þ.e. hinna svokölluðu einkareknu háskóla, og löggjöf opinberu háskólanna þannig að við getum nýtt hlutina betur. Ég held að það sé bara eðlileg krafa og skynsamleg. Það er dálítið merkilegt að við skulum ekki vera búin að gera það á þeim tíma sem liðið hefur við þær erfiðu aðstæður sem við höfum búið við í þjóðfélaginu. Hér hefur þurft að taka mjög erfiðar ákvarðanir um niðurskurð í heilbrigðismálum og velferðarmálum sem allir hefðu auðvitað viljað losna við en voru óumflýjanlegar nema við hefðum tekið til annars staðar. Þess vegna finnst mér við ekki hafa nýtt tímann nægjanlega vel til að fá niðurstöðu um þessa hluti.

Síðan er hægt að fara mun dýpra í þessa umræðu. Við sjáum til að mynda hvaða gagnrýni hefur komið frá forustumönnum í atvinnulífinu og maður hefur sjálfur spurt sig að því hvernig standi á því að menntakerfið okkar sé í raun ekki í takt við atvinnulífið. Forsvarsmenn atvinnulífsins hafa gert athugasemdir við þetta í langan tíma og sagt að við séum ekki að stýra náminu í rétta átt, það séu ekki jafngóðir möguleikar í ákveðnu námi, einkum tækni- og verknámi, eins og í öðru námi. Þeir telja að það muni há okkur í atvinnuuppbyggingu þar sem eru vaxtarbroddar. Þeir hafa gagnrýnt þetta lengi og það var bara núna í vikunni sem þessi gagnrýni kom síðast fram.

Við sem höfum skoðað reiknilíkön framhaldsskólanna — ég þekki ekki nægilega vel hvernig það er á háskólastiginu — vitum að þetta atriði kemur einmitt mjög skýrt fram þar. Þar er reiknað út frá svokölluð nemandaígildi hvað er greitt með hverjum nemanda. Út frá þeim forsendum er hvatinn í þeim skólum þar sem boðið er upp á bæði verknám og bóknám til að skera verknámið frá sér. Út frá rekstri skólans er hagkvæmara að skera burt verknámið þó svo að þörf atvinnulífsins sé einmitt sú að stýra nemendum frekar þangað. Ég hef verið dálítið gagnrýninn á að reiknilíkanið skuli vera þannig að það stýri nemendum inn á bóknámsbrautir sem er kannski minni þörf fyrir í atvinnulífinu, en ekki í verknám.

Síðan er auðvitað ekki hægt að sleppa því að ræða um fjárlögin í þessu sambandi. Ég hef nú stundum sagt bæði í gríni og alvöru að Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Hólaskóli séu góðkunningjar okkar í fjárlaganefnd. Það hefur komið fram gagnrýni frá forsvarsmönnum þessara skóla, gagnrýni sem menn hafa í raun ekki þrætt fyrir, vegna ástæðunnar fyrir því að þeir hafa verið að keyra fram úr í fjárlögum. Þetta vita allir og það hafa margsinnis komið fram í skýrslum Ríkisendurskoðunar ábendingar um þessar stofnanir. Það sem forsvarsmenn þessara skóla hafa bent á er að þeim er ætlað samkvæmt lögum að sinna ákveðnum kennsluskyldum en fjármunir hafa ekki fylgt þeim kvöðum og skyldum sem lagðar eru á skólana.

Þessu hefur ekki verið andmælt og hefur eiginlega verið viðurkennt til að mynda af hálfu menntamálaráðuneytisins að við breytingarnar á lögunum, þegar viðkomandi skólum var breytt og þeir settir á háskólastig hafi ekki fylgt það fjármagn sem þurfti. Það gefur augaleið að slíkar breytingar breyta öllum rekstrarforsendum, hvort sem það eru launamál eða annað, fyrir utan þær kröfur sem gerðar eru til háskólastofnana. Í því sambandi er mjög athyglisvert að lesa í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins með frumvarpinu að í raun og veru séu gerðar meiri kröfur á báða áðurnefnda skóla. Ég ætla að vitna orðrétt í umsögnina, með leyfi forseta:

„Starfsmenntanámið hefur ekki verið metið inn í reiknilíkan framhaldsskóla en fyrir liggur að um dýrt nám er að ræða. Þá er í búfræðslulögum að finna ákvæði um rannsóknir í þágu atvinnuveganna […].“

Síðan kemur hér neðar:

„Gert er ráð fyrir að umgjörð landbúnaðarháskólanna breytist vegna framangreinds en ekki er gert ráð fyrir auknum útgjöldum vegna þessa, nema e.t.v. vegna búnaðar- og starfsmenntanáms á framhaldsskólastigi.“

Það er dálítið athyglisvert að lesa þetta því í raun og veru er þetta ákveðin viðurkenning á því að þessir skólar fái ekki það fjármagn sem þeir eigi að hafa til þess reksturs sem þeir eru með nú þegar í dag. Þessir skólar hafa ekki verið innan fjárlaga í mörg ár og samt sem áður stendur í umsögninni með frumvarpinu að gert sé ráð fyrir að umfangið muni verða dýrara í rekstri en ekki gert ráð fyrir því í reiknilíkaninu og ekki gert ráð fyrir auknum útgjöldum.

Svo er reyndar mjög athyglisverð setning líka í framhaldi af þessu sem kemur fram í umsögninni og ég vil vitna í, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið að lögum má gera ráð fyrir auknum framlögum til landbúnaðarháskólans vegna búnaðar- og starfsmenntanáms á framhaldsskólastigi sem ekki liggur fyrir áætlun um af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytis á þessu stigi,“ — og svo kemur þessi setning í framhaldi: „en gera verður ráð fyrir að þau framlög rúmist innan útgjaldaramma ráðuneytisins eins og hingað til.“

Ég veit nú ekki hvernig maður á að taka þessari setningu, „eins og hingað til“. Þessir skólar hafa ekki náð að halda sig innan fjárlaga. Síðan er gert ráð fyrir því að það þurfi aukin útgjöld og gerðar eru meiri kröfur um nám. Í þeim lögum sem við erum að samræma hér þar sem nú á sama löggjöfin að gilda um opinberu háskólana er samt reiknað með því að hægt sé að reka skólana innan sama ramma og í dag sem ekki hefur verið hægt að fylgja.

Þetta kallar auðvitað á mun nánari skoðun. Það er þó ekki drepið á þetta í nefndaráliti meiri hlutans, þar er ekki að sjá neinar áhyggjur af því að skólarnir séu vanfjármagnaðir, eða hvað við köllum það, þótt gert sé ráð fyrir auknum kröfum á þá sem kalla á aukinn kostnað. Mér finnst þetta einhvern veginn ekki nægilega vel rökstutt. Hér kemur fram að ekki sé gert ráð fyrir því að útgjöldin aukist vegna þessa frumvarps, þ.e. kostnaður af rekstri viðkomandi stofnana nema að því leyti sem snertir samstarfsnetið sem ég kom inn á í upphafi ræðu minnar, sem mun verða um 50 millj. kr. á ári.

Síðan má líka nefna fjárlagaskrifstofan segir um samstarfsnetið og þá staldrar maður auðvitað við það sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir sagði hér áðan um hvort ekki væri hægt að víkka það út svo það næði til einkareknu skólanna. Í lok umsagnar fjárlagaskrifstofunnar segir, með leyfi forseta,

„Að mati fjármála- og efnahagsráðuneytisins liggur ekki fyrir með nægilega skýrum hætti hvernig samstarfsnet opinberu háskólanna muni nýtast til að ná sambærilegri hagræðingu og hlytist af fækkun háskóla, sérstaklega í ljósi mikils tilkostnaðar við innleiðingu og rekstur þessa samstarfs.“

Það kostar 600 millj. kr. að koma samstarfsnetinu á fót en samt eru efasemdir af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytis um það og þeir telja að ekki hafi verið sýnt nægilega skýrt fram á hvaða hagræðing náist. Maður staldrar auðvitað við þetta. Sú spurning blasir við af hverju ekki er reynt að nýta netið líka fyrir sjálfseignarstofnanirnar, einkareknu skólana og sömuleiðis sú spurning sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir spurði áðan, af hverju við reynum ekki að lagfæra lagaumhverfið í kringum háskólana, hvort sem þeir eru einkareknir eða opinberir háskólar, þannig að það sé að minnsta kosti hægt að gera það sem hv. þingmaður benti á að er ekki framkvæmanlegt núna, þ.e. að halda sameiginleg námskeið. Það virðist ekki vera hægt, eins og kom fram, að sameina Háskólann á Bifröst og Háskólinn í Reykjavík, en af hverju er ekki reynt að setja saman Háskólann á Bifröst og þær háskólastofnanir sem eru líka í Borgarfirði, í nágrenninu? (Gripið fram í: Hólum.) Hólum, já. Það væri mikilsvert að skoða það og umhugsunarvert hvort þannig næðist sparnaður. Að minnsta kosti þurfum við að gera þá kröfu til okkar að skoða þessi mál rækilega. Ég ætla ekki að fullyrða neitt um hver yrði niðurstaðan eða hvað mundi koma út úr því en þetta eru réttmætar spurningar frá hv. þingmanni sem ber að fara yfir.