141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[18:20]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir upplýsingarnar sem komu fram. Ég hafði reyndar ekki gert mér grein fyrir því sem hv. þingmaður benti á, á ósamræminu á milli opinberu háskólanna og einkareknu háskólanna sem komu fram. Hvað varðar skólagjöld til að tryggja verklega kennslu eru það hlutir sem maður hefði viljað hafa upplýsingar um, eins og ég sagði hér áðan, kosti og galla þess að fara ýmsar leiðir.

Við megum ekki byggja háa múra á milli opinberu háskólanna og sjálfseignarstofnananna, ekki miðað við þær forsendur sem við erum með í fjárlagagerðinni núna og reyndar kannski alltaf, eða alla vega á meðan er verið að taka ákvarðanir um að skera niður í mjög viðkvæmum málaflokkum.

Hv. þingmaður kom líka inn á að kannski hefði verið skynsamlegra að skoða málið í víðara samhengi og ég get alveg tekið heilshugar undir það en þá þurfum við að rífa niður girðingarnar. Við þekkjum það í stjórnsýslunni að girðingar voru á milli ráðuneyta og þær hafa verið þar í gegnum tíðina. Það var aldrei hægt að sameina stofnanir af því að þær voru hvor í sínu ráðuneytinu, jafnvel þótt mjög skynsamlegt væri sameina voru svokallaðar ráðuneytisgirðingar. Við verðum einhvern veginn að komast niður á það plan að skoða málið í víðara samhengi.

Ég ætla að koma því að að komið hefur fram hjá forsvarsmönnum Háskólans á Bifröst að þeir eru í raun og veru að bera það saman sem þeir fá fyrir hvern nemanda og það sem hann kostar ríkið á öðrum stað. Það er langt bil þar á milli, það er mjög langt bil þar á milli. Það er mjög mikilvægt að menn tryggi að það sé sambærilegt. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt og sanngjarnt, þannig verður það að vera.