141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[18:29]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég og hv. þingmaður þekkjum nú málefni þessara tveggja skóla nokkuð vel. Við erum nokkuð sammála um að mikilvægast sé að menn hafi nægt fjármagn miðað við þær kröfur sem gerðar eru til skólanna í lögum. Ég trúi því nú varla að verið sé að pína menn eða hvetja þá til að fara í einhverjar sameiningar. Ég held að svo sé ekki, en auðvitað verður maður alltaf að passa sig á svona hlutum.

Í frumvarpinu sjálfu kemur fram að starfsmenntunarnámið hafi ekki verið metið inn í reiknilíkan framhaldsskólanna, en fyrir liggur að um dýrt nám er að ræða, það kemur fram þarna. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að menn hafi það alveg á hreinu hvað það þýðir að samþykkja frumvarpið þó að það fjalli um að samræma lögin yfir opinberu háskólana. Þá vekur það dálitla athygli að ekki skuli gert ráð fyrir neinum kostnaðarauka í frumvarpinu við þær aðgerðir. Ekki er minnst á það í nefndaráliti meiri hlutans þannig að ég átta mig ekki alveg á því og set spurningarmerki við það. Ég er ekki með neinar fullyrðingar um annað. Það blasir við að sá kostnaður sem farið hefur verið farið í við að setja upp samstarfsnet hefur að mestu leyti verið stofnkostnaður hingað til, um 600 milljónir kr., en reiknað er með því að það kosti um 50 millj. kr. aukalega að reka samstarfsnetið. Þegar það var kynnt átti það einmitt að vera til hagræðingar fyrir viðkomandi stofnanir með því að vera með innskráningarnar á einum stað o.s.frv. Það átti að skila betri rekstri og gefa meiri möguleika til samnýtingar og átti þar af leiðandi að vera til sparnaðar fyrir viðkomandi stofnanir. En auðvitað er mikilvægt að skoða þessi mál mjög vandlega.