141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[11:13]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka áhugavert andsvar. Við þekkjum málið, ég og hv. þingmaður, sem hefur bæði Hólaskóla og Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri í sínu kjördæmi. Ég hef fengið erindi frá meðlimum í háskólaráðum, rektorum eða öðrum stjórnvöldum þessara skóla einmitt varðandi það að starfsnámið hafi ekki verið sett inn í reiknilíkanið og að fjárframlög hafi verið allt of lág, það hefur verið viðurkennt en það hefur enginn gert neitt í því. Menn hafa fengið það á tilfinninguna að skólarnir hafi verið sveltir vísvitandi í ákveðnum tilgangi.

Við erum auðvitað búin að vera í erfiðu efnahagsumhverfi og allt það en forsvarsmönnum þessara skóla hefur fundist að stundum hafi verið gengið lengra gagnvart þeim til þess að svelta þá — ég vil ekki segja hlýðni eða eitthvað slíkt en til einhvers, ef til vill til þess að þeir yrðu sameinaðir öðrum skólum eða eitthvað þess háttar.

Mér finnst tvennt mjög áhugavert við umsögn fjárlagaskrifstofunnar; annars vegar að bent sé á að starfsmenntanámið muni væntanlega þýða aukin útgjöld. Þar með er viðurkennt að kannski hafi verið einhver samlegðaráhrif þarna á milli sem við rjúfum hér með. Hins vegar óttast ég, og ég tek undir það með hv. þingmanni, að þegar ekki er síðan gerð nein tilraun, hvorki af mennta- og menningarmálaráðuneytinu né af fjárlagaskrifstofunni, til að meta kostnaðinn eða leggja til hvernig koma eigi til móts við viðkomandi skóla, að vandinn sem verið hefur verði ekki minni heldur vaxi og verði skilinn eftir (Forseti hringir.) óleystur. Það á eftir að leysa það vandamál.