141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[11:18]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að oft hafa verkefni sem menn setja á laggirnar tímabundið þá tilhneigingu að verða fastur liður í fjárlögum. Þannig aukast útgjöld ríkisins óhjákvæmilega vegna þess að menn vilja setja af stað eitthvert áhugavert verkefni tímabundið. Sagt er að það eigi standa undir sér og svo gerir það það ekki en þá er það einhvern veginn komið í ákveðið ferli.

Engu að síður er fjallað um það í umsögn fjárlagaskrifstofunnar að hluti af þeim fjármunum sem farið hafa til háskólanetsins séu stofnkostnaður, innleiðing á þráðlausum netbúnaði, samstarfssamningur um stoðþjónustukaup, innleiðing á hugbúnaði og fjarfundarbúnaður, sem eru stórar upphæðir, 31 milljón, og annað í þeim dúr, og síðan eitthvert kynningarefni og sitthvað fleira sem snýr að því að breyta umhverfi háskólanna til þess að þeir geti átt samstarf sín á milli. Ég get með sama hætti sett spurningarmerki við það af hverju beðið er um sömu fjárhæð áfram. Ef kerfið er komið á þá kostar örugglega einhverja fjármuni að reka það. Kostirnir við kerfið finnast mér vera augljósir, þ.e. að nemendur geti farið á milli háskólanna og sótt áhugaverða kúrsa og jafnvel útskrifast að lokum frá háskólanetinu frekar en frá einstökum stofnunum. Vissulega þurfa einhverjir að verða læknar og lögfræðingar, en það er orðið algengara að menn séu með fjölþættari menntun áður en þeir fara út í atvinnulífið. Atvinnulífið kallar á það.

Ég held því að menn séu að reyna að setja þetta upp og háskólanetið er að mínu mati jákvætt gagnvart því. En auðvitað verðum við alltaf að ganga varlega um ríkiskassann og ekki hleypa neinum (Forseti hringir.) með krumluna ofan í kassann án þess að vita nákvæmlega til hvers verið er að sækja þangað fjármuni.