141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[11:41]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson sagði að þetta væri í meginatriðum gott frumvarp. Ég vil spyrja hv. þingmann. Helsta atriði frumvarpsins er falið í að fella skuli niður lögin um búnaðarfræðslu þannig að Landbúnaðarháskóli Íslands og Hólaskóli – Háskólinn á Hólum falli undir lögin um opinbera háskóla. Telur hv. þingmaður það skynsamlega stefnu? Þeir skólar sem um ræðir voru upphaflega byggðir á grundvelli búnaðarfræðslunnar. Þeir hafa síðan þróast en engu að síður er búnaðarfræðslan auðvitað grunnurinn að starfsemi skólanna.

Það er líka þannig, eins og við munum, að þegar Landbúnaðarháskólinn var settur á laggirnar á Hvanneyri var það gert með því að hann fékk í tannfé heila rannsóknarstofnun, hann fékk RALA í tannfé. Það er svipað því að við mundum taka ákvörðun um að byggja háskóla einhvers staðar og setja Hafrannsóknastofnun undir þann háskóla. Það yrði auðvitað gríðarlega öflugur skóli með allar sjávarrannsóknirnar undir sér, en hér vorum við að leggja allar landbúnaðarrannsóknir í landinu, sem ríkið á annað borð kom að því að styðja, undir þennan háskóla. Svo er verið að boða þá ákvörðun að lögin um búnaðarfræðsluna falli niður þannig að það verði þá ákvörðunaratriði þeirra sem stjórna skólanum hverju sinni hvernig búnaðarfræðslan fer fram.

Það kemur mér dálítið á óvart að hv. þingmaður skuli skilyrðislaust fagna þeirri þróun. Ég skil rökin á bak við en ég hef að minnsta kosti mínar miklu efasemdir um að það sé rétt stefna og ég mun koma að því í ræðu minni á eftir.