141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[11:49]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar aðeins að spyrja hv. þingmann um þá umræðu, sem hann kom aðeins inn á í sinni ræðu, sem hefur átt sér stað um sameiningu háskólanna. (BJJ: Rétt.) Ég er algerlega sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að háskólarnir séu úti á landsbyggðinni ekkert síður en á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Hv. þingmaður fór mjög vel yfir það hversu mikla þýðingu Háskólinn á Akureyri hefur haft fyrir það samfélag og síðast en ekki síst þann mikla árangur og metnað sem hefur verið í þeim skóla.

Í umræðunni fyrir fjárlagagerðina 2010, þ.e. haustið 2009, komu fram upplýsingar um að ef Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík yrðu sameinaðir yrði hugsanlegur ávinningur af því í kringum 900 millj. kr. En sú umræða hefur aldrei verið tekin. Opinberu háskólarnir eru alltaf sér og það á einhvern veginn að soga þessa minni skóla inn á Stór-Reykjavíkursvæðið. Við þekkjum þá umræðu sem varð í kringum Háskólann á Bifröst þegar hann var í sameiningarvinnu eða -samræðum við HÍ. Það byggðist á því að soga allt hingað og skilja svo eitthvað lítið eftir, sem var ekki neitt. Þess vegna hurfu heimamenn frá því verki.

Því langar mig að spyrja hv. þingmann hvort ekki væri eðlilegra að taka þessa umræðu. Það er verið að kenna, eins og stundum er sagt, sitt hvorum megin við flugbrautina (BJJ: Nákvæmlega.) sömu greinarnar, sérstaklega í bóklega náminu. Það virðist vera þannig. En mér finnst skorta á að þessi umræða sé tekin og þessir hlutir skoðaðir frekar, þó svo að annar skólinn sé einkarekinn og hinn sé opinber háskóli, og það á ekki að soga allt utan af landsbyggðinni á Stór-Reykjavíkursvæðið.