141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[13:23]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Hann kom víða við varðandi uppbyggingu háskólanna hér á landi og eyddi drjúgum hluta ræðu sinnar í umfjöllun um landbúnaðarháskólana.

Mig langar því til að spyrja hv. þm. Einar K. Guðfinnsson um það sem kemur fram í nefndaráliti frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Það kom fram gagnrýni fyrir nefndinni að samkvæmt frumvarpinu væri ekki gert ráð fyrir formlegu utanumhaldi um búfræði- og garðyrkjunám hjá Landbúnaðarháskóla Íslands. Hvað finnst þingmanninum um þá fullyrðingu? Sérstaklega í ljósi þess að til langtíma litið er brýnasta verkefni næstu áratuga hér á landi að halda vel utan um þau svið vegna þess að hugmyndir eru uppi um að við verðum sjálfbær hvað varðar matvæli og grænmeti og þá er ég að tala bæði um dýraríkið og jurtaríkið. Finnst þingmanninum skorta framtíðarsýn í frumvarpinu varðandi þau mál? Finnst honum utanumhaldið ekki nægjanlegt eða finnst honum frumvarpið leiða okkur á rétta braut? Ég tel að alltaf þurfi að taka það til skoðunar þegar fram kemur gagnrýni á lagafrumvarp þannig að mig langar til að spyrja þingmanninn um gagnrýnina hvað varðar formlegt utanumhald um búfræði- og garðyrkjunám hjá Landbúnaðarháskóla Íslands.