141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[13:25]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt kjarni málsins. Eitt meginatriðið í frumvarpinu er að í rauninni er verið að leggja til að hverfa frá því sem er núna lagalegur áskilnaður um kvöð til handa Landbúnaðarháskólanum um tiltekið búnaðarnám eða búfræðslunám. Nú segja menn sem svo að skynsamlegt sé að hafa þær reglur almennar og síðan ráði skólarnir hvernig þeir þrói þau mál. Það eru alveg rök í málinu en ég er einfaldlega að segja að ég sé ekki hvaða nauður rekur okkur til að gera þær breytingar.

Núverandi fyrirkomulag er í fyrsta lagi ekki neitt hamlandi fyrir skólana. Í öðru lagi er það alls ekki til þess fallið að koma í veg fyrir t.d. að skólarnir þrói námið, þeir hafa verið að þróa það í gegnum árin. Við munum hvernig var stofnað til skólanna á sínum tíma. Þeir voru kallaðir bændaskólarnir og þeim var ætlað það hlutverk að láta fara fram ákveðið búfræðslunám. Síðan þróuðust þeir vegna þess að samfélag okkar þróast, námið hvarf frá því sem það var og nú er þannig komið að menn geta sótt sér háskólagráður í þeim háskólum. Skólarnir eru á heimsmælikvarða og í alþjóðlegu mati þannig að ég tel að stefnan sem er verið að fara hér feli í sér ákveðna óvissu, ekki í samtímanum og ekki í næstu framtíð en við vitum hins vegar ekki hvernig mál munu þróast. Það er einfaldlega það sem ég er að segja. Ég er að segja að ég tel mjög vel samrýmanlegt að hafa tiltölulega almenna löggjöf um háskólana þar sem tryggt er hið akademíska frelsi þeirra sem þar starfa og frelsi þeirra sem stjórna skólunum til að þróa námið, jafnvel þótt við séum með þennan lagalega áskilnað um búfræðsluna. Þess vegna sé ég ekki hvaða nauður rekur menn til að hverfa frá hinum lagalega áskilnaði í þeim efnum.