141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[13:47]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert sem hv. þingmaður var að tala um, þ.e. þessar rannsóknir. Eins og ég nefndi hér áðan hefur Landbúnaðarháskóli Íslands mjög mikla sérstöðu. Ég hef orðað það þannig að Landbúnaðarháskóli Íslands hafi fengið heila rannsóknarstofnun í fangið þegar hann var stofnaður. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig við mundum sjá skóla byggjast upp sem fengi til dæmis Hafrannsóknastofnunina í tannfé. Það yrði gríðarlega öflugur háskóli á sínu sviði og með gríðarlega öflugan rannsóknarþátt. Það er eitt af því sem er styrkleiki núverandi landbúnaðarháskóla á Hvanneyri að þannig var staðið að málum sem var mjög skynsamlegt. Afraksturinn af þessu sjáum við í fjölbreytilegum rannsóknum sem þessi skóli hefur staðið fyrir, rannsóknum sem í mörgum tilvikum eru á heimsmælikvarða enda oft og tíðum gerðar í samstarfi við vísindamenn víða úti um heim.

Ég nefndi hér jarðvegsrannsóknir. Ég nefndi rannsóknir á áburði, áburðarnotkun, sem eru mjög mikilvægar fyrir okkur vegna sérstöðu og legu lands okkar, okkar harðbýla lands á köflum. Ég nefni einnig grasrannsóknir sem hafa verið gerðar og þessar kornræktarrannsóknir sem eru mjög áhugaverðar. Ég tek undir það með hv. þingmanni, hver hefði trúað því fyrir ekki mjög mörgum árum að við færum farin að stunda mikla kornrækt í landinu og að þar sæju menn gífurlega mikla vaxtarmöguleika?

Ég vil líka nefna garðyrkjuna, ég er ekki viss um að mjög margir geri sér grein fyrir hvað hefur verið að gerast þar. Þrátt fyrir að tollverndin hafi verið tekin af á sínum tíma og gerður þessi aðlögunarsamningur við garðyrkjuna þá hefur það gerst að hún hefur á margan hátt blómstrað. Við vitum að einstakar greinar hafa átt undir högg að sækja en annars staðar hafa menn verið mjög að sækja fram og hver er ástæðan? Hún er auðvitað fjölbreytileg en meðal annars sú að við höfum stundað landsrannsóknir varðandi lýsingar sem hafa opnað nýja möguleika á þessari ræktun allan ársins hring.