141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[13:49]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir þetta andsvar. Þarna erum við komin að merg málsins, við verðum að standa vörð um það sem eyþjóð að hafa öfluga háskóla og opinberu háskólarnir verða allir að sitja við sama borð að því leyti.

Varðandi rannsóknir og þróun í háskólanum þá er það gríðarlega mikilvægt, eins og þingmaðurinn fór yfir, að fé sé veitt í þær stofnanir til að fram fari nýsköpun á sviði landbúnaðar og garðyrkju. Þess vegna verða landbúnaðarháskólarnir að fá sambærilegt fé til síns reksturs. Ef við höfum ekki vel menntaða einstaklinga sem geta fylgt eftir þeirri rannsóknarvinnu sem fer fram í háskólunum er verkið til einskis unnið.

Ég vil benda á það í þessari umræðu, vegna þess að menn hafa áhyggjur af landbúnaðarháskólunum í þessu frumvarpi, að útflutningstekjur vegna loðdýraræktar hafa aldrei verið meiri en nú. Það er sprenging á mörkuðum erlendis í eftirspurn eftir íslensku skinnunum því að hér eru ákjósanlegar aðstæður til að rækta loðdýr; hér er kuldinn líka, það er ein auðlindin. Þetta hefði ekki verið hægt hefðu framsýnir menn ekki sett á stofn kennslu í loðdýrarækt hér á landi. Að vísu er alltaf hægt að sækja menntunina erlendis en þetta er þáttur í því að þetta er orðin sjálfbær flott atvinnugrein sem skilar miklum gjaldeyri inn í landið og því ber að fagna. Fiskeldið hefur líka sprungið út sem flott atvinnugrein hér á landi og er að skila okkur miklum gjaldeyristekjum; hreinræktun á próteinum er það sem fiskeldið gefur og um þetta eigum við að standa vörð.