141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[13:51]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mjög mikilvæg umræða sem við eigum hér um opinbera háskóla og stöðu menntunar almennt í landinu.

Hv. þingmaður ræddi fyrr í umræðunni um stöðu einkaháskólanna, þ.e. hinna háskólanna, hins háskólans í Borgarfirði, Háskólans á Bifröst. Ég sakna þess þegar menn ræða um menntun hér á landi, framtíðarmöguleika okkar í menntun og rannsóknum, að við ræðum það hvernig við getum nýtt betur samstarf og þróun milli einkaháskólanna, þeirra sem eru á þeim markaði, og opinberu háskólanna.

Það er mín skoðun að í svo fámennu landi sem okkar sé mjög mikilvægt að við nýtum sem best þá fjármuni sem settir eru í menntun. Ég tel að það starf sem unnið hefur verið í Háskólanum í Reykjavík, þær rannsóknir sem þar hafa verið stundaðar, skipti gríðarlega miklu máli. Ég er ekki á þeirri skoðun að það eigi að þjappa of mikið á háskólasviði en engu að síður þurfum við að gæta að því að það fjármagn sem í þetta er sett nýtist sem best.

Í þeim sameiningarhugmyndum sem uppi hafa verið hafa menn almennt verið að tala um að erfitt sé að sameina opinbera háskóla og einkaháskóla af því að lagaumhverfið sé svo ólíkt sem um það gildir. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hún sé því sammála eða hvort hún sjái tækifæri til að breikka samvinnuna, t.d. milli Háskólans í Reykjavík og Háskóla Íslands eða á milli Háskólans á Bifröst og Háskóla Íslands.