141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[13:56]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Á vettvangi Vísinda- og tækniráðs hefur töluvert verið fjallað um stöðu háskólastigsins. Í skýrslu sem Vísinda- og tækniráð sendi frá sér, að ég hygg, á síðasta ári kom fram sú skoðun ráðsins að nauðsynlegt sé að fara í frekari sameiningu á háskólastiginu. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur hér á Alþingi að tala miklu betur um framtíð háskólastigsins en við höfum gert. Ég sakna þess reyndar mjög mikið að svo seint á kjörtímabilinu skulum við vera að heyja þessa mikilvægu umræðu.

Mér er hugleikin hin mismunandi staða í lagaumhverfi einkareknu skólanna og opinberu skólanna og ég þekki það af eigin raun vegna þess að um tíma kenndi ég lögfræði á Bifröst. Ég nefni sem dæmi að þegar menn vildu reyna að hjálpast að við að kenna ákveðnar grunngreinar í Háskólanum á Bifröst og síðan í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri — í skólum sem eru á sama svæðinu í sömu sveit — rákust menn strax á háa veggi í því. Þar sem regluverkið var svo ólíkt var erfitt að sameina ákveðnar greinar til að það nýttist á báðum stöðum. Mér þykir það slæmt þegar lagaumhverfið þvælist svo fyrir mönnum þegar verið er að reyna að nýta fjármuni betur.

Ég spyr því hv. þingmann hvort ekki sé brýnt að hefja umræðu um menntamál á víðari grunni, hvort við þurfum ekki að líta til þess að það skiptir öllu máli fyrir Íslendinga að ná góðum árangri í grunnrannsóknum og vísindum, að allir þeir fjármunir sem við setjum í menntakerfið verði að nýtast með þeim hætti að framtíðarkynslóðir landsins fái þá menntum sem við helst kjósum og að við náum jafnframt að bæta okkur á sviði rannsókna og nýsköpunar. Ég held að þar liggi til lengri tíma samkeppnisstaða Íslands.