141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[13:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég tel afar brýnt að við reynum að nýta það fjármagn sem er til staðar til að hægt sé að vera hér með háskólastarf sem allir græða á, sem sé eins gott og best verður á kosið. Við megum heldur ekki gleyma því að íslensku háskólarnir eru í bullandi samkeppni við háskóla hvar sem er í heiminum. Þess vegna verður að fara þá leið að hámarka hagnaðinn innan háskólanna og er ég þá að tala um hinn mannlega þátt og gæði kennslu. Eins og þingmaðurinn fór yfir þarf að fella þá múra sem eru þarna á milli. Það er lífsnauðsynlegt fyrir okkur sem þjóð, sem ætlar að vera með góða kennsluhætti til framtíðar, gott háskólastarf og mikla rannsóknar- og þróunarvinnu, að það sé gert.

Hv. þingmaður lýsti reynslu sinni þegar hún var að kenna lögfræði á Bifröst og sóst hefði verið eftir kröftum hennar í Háskólanum á Hvanneyri, hún sagði að þröskuldur hefði verið þar á milli þar sem annar skólinn væri einkaskóli og hinn opinber háskóli. Það er auðvitað alls ekki í lagi að málum sé þannig háttað. Sjálf hef ég farið í gegnum nám við skólann á Bifröst og þarna er stutt á milli háskóla. Borgarfjörður er að verða háskólasamfélag, það gerðist mjög hratt. Auðvitað á þessum málum að vera þannig skipað hér á landi að hægt sé að samnýta kennara þannig að þeir geti farið á milli skóla án þess að einhverjar hindranir séu í veginum.

Til að svara spurningunni varðandi sameiningu háskóla þá er það mitt mat að einu skrefi hafi verið sleppt. Eins og háskólarnir eru reknir í dag þá minnir það helst á að það sé byggðastefna að hafa háskóla vítt og breitt um landið en ég held að aldrei hafi verið tekin ákvörðun um að það væri byggðastefna okkar hér á landi að hafa háskólana þannig. Þeir spruttu upp og svo hefur reynst erfiðara að sameina þá. En ég óska eftir því til framtíðar að hægt verði að samhæfa þetta, fækka rekstrareiningunum og hafa stærri háskóla.