141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[14:22]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta andsvar. Þetta er rétt lýsing hjá honum á þessu ferli. Ég held að margir hafi óttast flutning skólanna úr landbúnaðarráðuneytinu yfir í menntamálaráðuneytið. Ég segi aftur á móti eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson — ég var reyndar ekki hér á þingi þá en fylgdist bara með þessu í almennri þjóðmálaumræðu — að mér fannst það í sjálfu sér á margan hátt skynsamlegt að menntakerfið væri undir sama hatti og það ætti ekki að hafa þær afleiðingar að þessir skólar nytu ekki sannmælis innan þess kerfis.

Það er hins vegar rétt að hefðu þeir verið innan fagráðuneytis hefði þar kannski ríkt sérstakur skilningur á sérstöðu þeirra í því ljósi að þeir eru annars vegar skólar á framhaldsskólastigi og hins vegar háskólar með starfsmenntabrautir. Það er það sem mér finnst skorta á í þessu frumvarpi, að skýra það nægilega vel. En það er líka vegna þess — og þess vegna hef ég efasemdir almennt um að rjúfa þau tengsl sem ég var að koma inn á — að við viljum auka starfsmenntanám og okkur hefur mistekist það á liðnum áratugum. Þá er það spurningin: Er þetta leiðin? Er það leiðin að skilja enn skýrar á milli atvinnulífs, starfsmenntaskóla og háskóla? Eða er kannski skynsamlegra að velta því fyrir sér að hægt sé að blanda þessu meira saman?

Ég nefndi bóknámsbrautirnar í fyrri ræðu minni. Við erum að koma fleira fólki út úr atvinnuleysi, fólki sem hefur dottið út úr skóla, það er að fara inn í Keili, það er að fara á Bifröst, það er að fara í Háskólann á Akureyri, á bóknámsbraut á frumgreinabraut, sem er auðvitað ekkert annað en framhaldsskóli. Ég velti fyrir mér hvort menn hafi ekki þessa yfirsýn. Þess vegna fullyrði ég að frumvarpið þurfi heldur meiri umræðu (Forseti hringir.) og umræðu um menntamál þarf að taka miklu dýpri hér í þinginu en verið hefur.