141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[14:25]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta áhugaverð sjónarmið hjá hv. þingmanni. Ég verð að segja að fyrir fram var ég frekar jákvæður í garð þessa frumvarps sem hér um ræðir og taldi að góð rök væru fyrir því að samræma löggjöf um alla skóla, allt háskólastigið, alla opinbera háskóla, að eðlilegt væri að rammalöggjöf á því sviði væri samræmd fyrir alla þessa skóla. En maður veltir fyrir sér hverjar afleiðingarnar verða fyrir þá skóla sem vissulega hafa mikla sérstöðu í þessu sambandi.

Hættan er sú að hinn almenni rammi henti þeim síður en Háskóla Íslands eða Háskólanum á Akureyri eða skólum sem í eðli sínum byggja á töluvert annars konar fyrirkomulagi en landbúnaðarskólarnir sem þurfa að hafa miklu nánari tengsl við atvinnugreinina eða atvinnulífið á þeim sviðum sem þeir starfa. Það liggur í augum uppi að skólar á þessu sviði verða að vera í lifandi og ríkum tengslum við landbúnaðinn í landinu í breiðum skilningi. Öll skref sem einhvern veginn skapa meiri fjarlægð eru óheppileg.

Nú má segja að þau vandamál sem hv. þingmaður lýsir í ræðu sinni, sem snerta annars vegar skilning í stjórnkerfinu og hjá fjárveitingavaldinu og hins vegar einfaldlega það að tryggja þá fjármuni til rekstrarins sem til þarf, séu mál sem eru leysanleg hvernig sem lagaumhverfið er nákvæmlega orðað að þessu leyti. Það er hægt að gera vel og tryggja stöðu þessara skóla vel jafnvel þó að þessar lagabreytingar nái fram að ganga. En (Forseti hringir.) þegar áhuginn í stjórnkerfinu er ekkert endilega mjög mikill er hætt við að veikara lagaumhverfi komi niður á skólum af þessu tagi.