141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[14:27]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég get í sjálfu sér tekið undir lokaorð hv. þm. Birgis Ármannssonar um að svona rammalöggjöf, almenn löggjöf, um mjög ólíka skóla geti komið niður á þeim sem eru öðruvísi en stóra heildin. Ég get nefnt sem dæmi Keili á Suðurnesjum, mjög áhugaverðan skóla sem hefur starfað í allt að tíu ár — hvort það var ekki tíu ára afmæli í vor, 1.400 nemendur útskrifaðir, og í gegnum þessar frumgreinadeildir hafa um 850 haldið áfram í framhaldsnámi, ef ég man þetta allt rétt. Sá skóli hefur því sannarlega komið inn á nýtt svið sem hefðbundnu háskólarnir gátu ekki tekið að sér og hjálpað fólki að öðlast nýja þekkingu, nýja menntun, og verða um leið samkeppnishæfara um betri störf og betri lífskjör en það ella hafði.

Ég er almennt orðinn meira efins um að þetta sé rétt leið þó að ég hafi eins og hv. þingmaður verið frekar jákvæður gagnvart slíkri rammalöggjöf upphaflega, þ.e. ef hún hindrar á einhvern hátt leiðir sem við höfum verið að þróa á liðnum árum, til að mynda í vaxandi atvinnuleysi, til að bregðast við auknu brottfalli, til að reyna að finna leiðir til að fjölga starfsmenntabrautum sem síðan geta leitt til þess að fólk fær áhuga á að sækja sér háskólamenntun á því sviði. Ef við komum á einhvern hátt í veg fyrir þá þróun eða takmörkum þessar leiðir sem verið hafa færar og förum til verri vegar þá mun ég leggjast gegn þessu. Ég tel aðalatriðið að þetta mál fái meiri umræðu og betri umfjöllun í nefnd áður en við ljúkum því á þeim skamma tíma sem (Forseti hringir.) hlýtur að vera eftir til loka þessa þings.