141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[14:50]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir yfirgripsmikla og góða ræðu um það mikilvæga mál sem við ræðum. Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði um samstarfsnetið, þetta háskólanet. Reynslan af því hefur verið afar góð og ég held að það sé mjög jákvætt að lögfesta þann þátt. Mig langaði að spyrja hv. þingmann, vegna þess að hann kom inn á þetta samstarfsnet og háskólastarfið almennt, hver sé skoðun hans á þeirri umræðu sem almennt er í gangi varðandi samstarf þessara háskóla annars vegar eða hugmyndir um sameiningar sem af og til hafa skotið upp kollinum, að allir þessir opinberu háskólar eigi að sameinast í einn háskóla. Telur hv. þingmaður að við fáum nægilega mikið út úr þessu samstarfsneti eða er hv. þingmaður einn þeirra sem vilja ganga lengra og sameina háskólana? Að mínu áliti hefur það sýnt sig að þetta samstarfsnet hefur þjónað opinberu háskólunum mjög vel og í raun sýnt fram á hvernig mögulegt er að ná fram samlegðaráhrifum en um leið að háskólarnir geti haldið ákveðnu sjálfstæði sínu.

Mig langaði í fyrra andsvari mínu að fá svör við þessu hjá hv. þingmanni og ætlaði mér í seinna andsvari að koma inn á það sem snýr að búnaðarnámi, garðyrkjunámi og tengslum við atvinnulífið líkt og kom fram í ræðu hv. þingmanns en það væri fróðlegt að fá þetta hér í fyrra andsvari.