141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[14:52]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við fyrri spurningunni er eiginlega mjög skýrt svar, það er bæði já og nei, þ.e. við verðum að hafa augun opin fyrir sameiningu háskóla. Við vitum að á tiltölulega skömmum tíma fjölgaði skólum á háskólastigi mjög mikið hér á landi. Í mörgum tilvikum var ráðist í verkefni af miklum metnaði og miklum krafti en stundum hefði meiri forsjá kannski verið æskileg í því sambandi. Almennt talað, virðulegi forseti, held ég að við verðum að hafa augun opin fyrir sameiningu á þessu sviði þar sem það á við og þar sem það skilar okkur ávinningi.

Ég get hins vegar alveg tekið undir það með hv. þingmanni að hvað sem slíkum áformum líður þá sé kannski það mikilvægasta, og jafnvel enn mikilvægara en sameining stofnana, að hugsa um samstarfið. Það þarf að hugsa um það hvernig mismunandi stofnanir á þessu sviði geti unnið sem best saman þannig að kraftarnir nýtist vel, stofnanirnar haldi sjálfstæði sínu og hafi möguleika á því að bjóða upp á fjölbreytni en þar sem þær sannanlega geta unnið saman þá séu þeir möguleikar nýttir. Allar breytingar sem formgera slíkt samstarf eða geta stuðlað að því að auka það eru af hinu góða.

Ég styð þess vegna þennan þátt frumvarpsins en segi aftur: Við megum ekki loka augunum fyrir því ef við getum þurft að sameina skóla eins og stofnanir á svo mörgum sviðum samfélagsins, ef það skilar okkur betri árangri. En ég mundi alltaf segja: Fyrst skulum við skoða samstarfsmöguleika.