141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[14:54]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég vil taka undir með hv. þingmanni varðandi samstarfið en ég held að samstarf eins og þetta kunni á einhverjum tíma að geta leitt til sameiningar. Þá er það á forsendum viðkomandi stofnana sjálfra en ekki valdboð að ofan frá löggjafarvaldinu, ákvörðun um að nú eigi allir háskólar að sameinast í einn. Það er einmitt þess vegna sem þetta samstarfsnet er svo jákvætt, að þarna geta háskólarnir sjálfir þróað samstarf sitt. Hugsanlega mun það í einhverjum tilfellum leiða til sameiningar en það er þá á forsendum háskólanna sjálfra, þeirra sem stýra þeim og þeirra sem starfa við þá, nemenda og fleiri aðila. Það er þannig sem það á að gerast en ekki með valdboði héðan frá Alþingi. Þess vegna er þetta samstarfsnet svo jákvætt.

En að öðrum þætti sem hv. þingmaður kom inn á og hefur kannski verið það mál sem hvað mest hefur verið gagnrýnt. Það mál snýr meðal annars að stöðu búnaðarnáms og garðyrkju og þeim tengslum sem verið er að rjúfa milli atvinnulífsins og háskólanna. Það hefur verið töluvert gagnrýnt eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á, meðal annars af hagsmunaaðilum í landbúnaði, að þarna sé verið að rjúfa þessi tengsl og menn lýsa yfir miklum áhyggjum af því. Meiri hlutinn telur sig þó hafa komið til móts við þetta að einhverju leyti og telur að með frumvarpinu, og meðal annars með minnisblaði sem kemur frá menntamálaráðuneytinu, sé verið að koma til móts við þessi sjónarmið. Sá sem hér stendur mundi vilja hafa þetta miklu skýrara, þessi tengsl og ákvæðin um þau, að þarna verði að bregðast við. Hv. þingmaður tók undir slík sjónarmið en ég gat ekki heyrt skýr svör varðandi þessa þætti.

Telur hv. þingmaður að þarna sé mikilvægt að bregðast við, þ.e. að frumvarpið fari ekki í gegn eins og það er núna?