141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[15:01]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég á ekki sæti í nefndinni sem fjallaði um málið þannig að ég get ekki svarað fyrir það hvers vegna ekki er að finna betri umfjöllun um atriðið í frumvarpinu sjálfu eða í nefndaráliti. Ég verð eiginlega að vísa spurningunni til þeirra sem tóku þátt í starfi nefndarinnar.

Ég get hins vegar sagt sem mína almennu skoðun að ég held að það hafi sýnt sig að aðfaranám af því tagi sem um ræðir er gríðarlega mikilvægt og að þess konar á nám, sem hefur verið kallað ýmsum nöfnum en er í öllum tilvikum nám sem hefur það að markmiði að búa fólk undir nám á tilteknum sviðum í háskóla, hefur reynst mjög mikilvægt.

Eins er auðvitað eðlilegt að einhvern veginn sé tryggð samfella í því námi sem snýr að þeim mikilvægu sviðum sem heyra undir það, nám á sviði búfræði, garðyrkju og skylt nám. Mér sýnist á frumvarpinu að staða þessa náms sé ekki nægilega tryggð í lögum og ég hefði viljað sjá tekið á því á einhvern hátt í málinu sjálfu. Þarna er auðvitað að finna ákveðna bráðabirgðaráðstöfun, getum við kallað hana, í ákvæðum til bráðabirgða sem á að taka á stöðu þeirra sem stunda námið í dag. Mér finnst hins vegar skorta nokkuð upp á að gengið sé þannig frá hlutunum að búinn sé til einhver varanlegur lagagrundvöllur að því leyti.