141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

Reykjavíkurflugvöllur.

[10:04]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa spurningu um mál sem brennur á mörgum.

Það hefur lengi staðið fyrir dyrum að ganga frá samkomulagi milli ríkisins og Reykjavíkurborgar um ráðstöfun á landi sem borgin vill fá undir byggingarland. Það hefur líka verið á vinnsluborði og til athugunar að leggja niður þá flugbraut sem hv. þingmaður vísar til. Síðan eru mismunandi sjónarmið uppi um framtíð flugvallarins. Reykjavíkurborg, eða þeir sem þar ráða ríkjum, vill flytja flugvöllinn. Aðrir eru því andvígir, þar á meðal ég, ég er mjög andvígur því.

Hv. þingmaður vísar til þess að undirritað hafi verið samkomulag milli ríkisins og fjármálaráðuneytis um landsölu en ég legg áherslu á að það samkomulag er skilyrt og verður að skoðast heildstætt með tilliti til þess hvað stjórnvöld sem fara með málefni flugsins og þar á meðal Reykjavíkurflugvallar, með öðrum orðum innanríkisráðuneytið, hyggjast fyrir í þessum efnum. Þar er mörgum spurningum enn ósvarað. Þessi mál eru langt í frá að vera frágengin. Við viljum vita nánar um áform Reykjavíkurborgar varðandi flugvöllinn. Fréttir hafa borist af því að menn hafi á undanförnum dögum og vikum verið að dusta rykið af gömlum skýrslum um Hólmsheiðina. Er virkilega áformað að reyna að flýta fyrir flutningi vallarins? Þá er það náttúrlega ekki einkamál Reykjavíkurborgar vegna þess að landsmenn allir kæmu til með að kosta flutning á flugvelli, það eru skattborgarar í landinu öllu sem standa straum af kostnaði við flugvöllinn í landinu þannig að (Forseti hringir.) þetta er ekkert einkamál borgarinnar. Ég legg áherslu á að það samkomulag sem undirritað var á dögunum er skilyrt og háð samþykki innanríkisráðuneytisins (Forseti hringir.) um alla framkvæmd því þetta er komið undir því hvort tiltekinni flugbraut verði lokað og það mál hefur ekki verið til lykta leitt.