141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

Reykjavíkurflugvöllur.

[10:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Það kom fram í svari hæstv. ráðherra að samkomulagið sem ég spyr um væri skilyrt. En það kom reyndar líka fram í spurningu minni og það sem ég var að spyrja um var: Þykir hæstv ráðherra eðlilegt að gera þennan samning á meðan ekki liggja fyrir svör við öllum þeim spurningum sem hæstv. ráðherra var að þylja upp? Mér finnst það ekki eðlilegt. Það virkar eins og verið sé að gera þetta til að skapa aukinn þrýsting, setja þrýsting á hæstv. ráðherra og aðra sem með þessi mál fara. Það er að mínu mati ekki eðlileg nálgun í þessu máli. Hugmyndina um flutning Reykjavíkurflugvallar upp á Hólmsheiði sem hæstv. ráðherra nefndi taldi ég að væri löngu búið að slá af. Eina hugmyndin um hugsanlegan flutning einhvern tíma í langri framtíð sem menn hafa talið raunhæfa er hugmyndin um flutning á Löngusker eins og Steingrímur Hermannsson og Guðmundur G. Þórarinsson viðruðu einhvern tíma á 8. áratugnum og hefur síðan nokkrum sinnum skotið upp kollinum. Sá flutningur verður ekki í fyrirsjáanlegri framtíð svoleiðis að (Forseti hringir.) Reykjavíkurflugvöllur verður á þeim stað sem hann er núna í fyrirsjáanlegri framtíð. Er þá ekki eðlilegt að hann virki sem best sem þriggja flugbrauta flugvöllur?