141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

sala á landi Reykjavíkurflugvallar.

[10:21]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Nú ríður á að vera nákvæmur í svörum. Staðreyndin er sú að samningurinn var undirritaður án þess að ég hefði um það vitneskju sem innanríkisráðherra. Ég vissi ekki að samningurinn hefði verið undirritaður í byrjun þessa mánaðar en það var gert.

Hins vegar þegar við tölum um aðkomu að málinu hefur hún að sjálfsögðu verið fyrir hendi í þeim skilningi að það hefur verið sameiginlegur vilji ráðuneyta Stjórnarráðsins að ganga til samninga við Reykjavíkurborg um nákvæmlega þetta, um sölu á landinu, þannig að í þeim skilningi er um að ræða fyllilega eðlilega aðkomu okkar að málinu og hefur verið allan tímann. Það hefði hins vegar verið heppilegra og eðlilegra að ekkert hefði verið undirritað fyrr en aðrir þættir málsins væru uppgerðir vegna þess að þó að samkomulagið hafi gildi í sjálfu sér, að sjálfsögðu, verður samningurinn verður ekki virkur fyrr en önnur mál eru frágengin og þar á meðal lokun tiltekinnar flugbrautar. Það eru að sjálfsögðu ýmsir þættir sem flugreksturinn og þar með ráðuneyti flugmála og samgangna vilja skoða hver eru framtíðaráform um núna á allra næstu árum; hvert er viðskiptamódelið fyrir nýja flugstöð, vegna þess að spurningum af þessu tagi verða menn að fá svarað áður en pakkinn er endanlega gerður upp og það hefur ekki verið gert.