141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

afskipti innanríkisráðherra af bandarískum lögreglumönnum.

[10:31]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það er nákvæmlega málið, það er allt annað mál. Skoðanir hæstv. ráðherra í þessu máli gagnvart Wikileaks eða einhverjum öðrum sem hugsanlega kunna að tengjast rannsókn málsins skipta akkúrat engu máli því að það er lögreglan og ákæruvaldið sem fer með rannsókn máls hverju sinni.

Ríkissaksóknari sagði á fundi nefndarinnar í síðasta mánuði að það væri afar sérstakt hvernig ráðherra hefði beitt sér í þessu máli, með mjög sérstöku inngripi. Við skulum átta okkur á því að við erum ekki að fjalla um einhvern stuld á heyrúllum eða rúlluplasti. Við erum að tala um hugsanlegt brot gagnvart stjórnskipan landsins, hugsanlega tölvuárás, sem síðan var stöðvuð af lögreglunni, á stjórnskipan landsins, á dómstólana, á Alþingi, á ráðuneyti. Svo mætir hæstv. innanríkisráðherra og tekur á þessu af einhverri léttúð. Það skiptir máli að við áttum okkur á því hver myndin er. Myndin sem hæstv. ráðherra er að reyna að móta í þinginu er, eins og krakkarnir mundu segja, „blörruð“ (Forseti hringir.) eða brengluð. Það er alveg ljóst að mínu mati, eftir þær upplýsingar sem lögreglan hefur veitt á fundi nefndarinnar, að ráðherra hefur haft óeðlileg afskipti af ákæruvaldinu, óeðlileg. (Gripið fram í: Nei, nei.)