141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

afskipti innanríkisráðherra af bandarískum lögreglumönnum.

[10:32]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort þetta verður að sannleika ef það er hrópað nógu oft og nógu hátt í þessum þingsal eða utan þessara veggja en ósatt er það. Innanríkisráðuneytið og innanríkisráðherra hefur ekki haft afskipti af ákæruvaldinu eða rannsókn málsins.

Þegar erlendir lögreglumenn koma hins vegar hingað til lands gera þeir það á grundvelli laga og reglna sem um það gilda. Þá þarf að koma fram réttarbeiðni um tiltekna lögreglurannsókn. Sú réttarbeiðni hafði ekki borist. Menn voru hér því í ólöglegum erindagerðum og þeim var gerð grein fyrir því. Ég ætla að heyra hlutina fremur frá lögreglunni beint. Ég hef átt ágæta fundi með lögreglumönnum og þeim sem að þessum málum koma og finnst það nú ekki endilega til að bæta málin (Gripið fram í.) að fá hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur til að gerast milligöngumaður um þeirra afstöðu.