141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

skýrsla fjármálaráðherra um hagvöxt og dagskrá fundarins.

[10:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það var sérstakt að heyra það áðan að forseti tilkynnti að gert yrði klukkutímahlé fyrir nefndafundi og einnig þingflokksfundi. Ég viðurkenni að ég hélt að gefinn yrði hefðbundinn tími fyrir þingflokksfundi á þessum degi en það er líklega fátt hefðbundið við þennan dag og þá stjórn sem virðist vera hér á málum þegar þingi átti að ljúka á föstudaginn var. Þegar við komum svo til fundar í dag sjáum við að hér eru 41 þingmál á dagskránni. 41 þingmál sem forseti virðist telja að unnt sé að ljúka í dag eða á næstu dögum miðað við hvaða orð hafa verið uppi um stjórn þingsins undanfarið og hvað hægt er að gera.

Ég verð að segja að það er mjög undarlegt að verða vitni að því hvernig haldið er á málum. Ég vil líka minna á að ef hér eiga að vera venjubundin þingstörf áfram þá eru þingflokksfundir á mánudögum og miðvikudögum. (Forseti hringir.) Einnig liggja fyrir fjölmargar beiðnir um sérstakar umræður sem ég óska eftir að forseti hleypi að á dagskrá.