141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

skýrsla fjármálaráðherra um hagvöxt og dagskrá fundarins.

[10:40]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég get ekki annað en komið hér upp og gert athugasemd við fundarstjórn þingsins þessa dagana. Búið er að lýsa því yfir vikum saman að starfsáætlun þingsins haldi og þess vegna þurfi að stöðva stjórnarskrármálið og taka það af dagskrá. Formaður Samfylkingarinnar hefur lýst því yfir, formaður Vinstri grænna hefur lýst því yfir, forseti þingsins hefur lýst því yfir að starfsáætlun þingsins sé heilög og þess vegna sé ekki hægt að afgreiða stjórnarskrá sem meiri hluti þjóðarinnar vill samkvæmt þjóðaratkvæðagreiðslu fá sem sína.

Hér er aftur á móti verið að setja á fund með 41 máli sem ekkert samkomulag er um. Það er búið að framlengja starfsáætlun þingsins.

Forseti. Alþingi Íslendinga er eitthvert óskipulegasta fyrirbæri sem til er og starfsáætlun og starfsaðferðir á þinginu eru til háborinnar skammar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þeir sem stýra hér málum eiga að líta í eigin barm og láta af svona stjórn eða hætta störfum ella. Það er komið alveg nóg. Ég er búinn að vera hér í fjögur ár og þingstörf eru óskipulögð. Löggjafarsamkundan á Íslandi (Forseti hringir.) getur ekki afgreitt þingmál. Það er algerum tilviljunum háð hvaða frumvörp verða hér að lögum. (Forseti hringir.) Þingið er orðið að einhverjum óskapnaði sem gert er grín að út um allan heim.

Forseti. (Forseti hringir.) Ég óska eftir að þessum fundi verði frestað og komið verði skipulagi á dagskrá þingsins.