141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

skýrsla fjármálaráðherra um hagvöxt og dagskrá fundarins.

[10:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ekki alls fyrir löngu beindi ég til forseta að reyna að gera ráð fyrir þó ekki væri nema klukkutímaumræðu um stöðu lögreglunnar í landinu. Þverpólitískur hópur hefur nú skilað skýrslu til innanríkisráðherra sem dregur fram grafalvarlega stöðu lögreglunnar um allt land, ekki síst á landsbyggðinni. Ég sé þess hvergi stað að við getum fengið að ræða þessa mikilvægu þverpólitísku skýrslu. Það endurspeglar líka forgangsröðun ríkisstjórnarinnar að í þeirri nefnd sem ég sit í, allsherjar- og menntamálanefnd, er alveg ljóst af hálfu innanríkisráðherra að forgangsraða á í þágu Happdrættisstofu, sem er 25. mál á dagskrá, og í þágu áfengislaga eða skýrara banns við auglýsingum. Þetta var sú forgangsröðun af hálfu innanríkisráðherra sem beint var til nefndarinnar en önnur mál, mikilvæg mál eins og skipting í lögregluumdæmi og lög um útlendinga, hafa ekki fengist rædd í þaula í nefndinni.

Ég vil draga fram þessa forgangsröðun ríkisstjórnarinnar um leið og ég undirstrika ósk mína (Forseti hringir.) um að við fáum svigrúm, þó það væri ekki nema klukkutími, til að ræða mikilvæga skýrslu um stöðu lögreglunnar.