141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

skýrsla fjármálaráðherra um hagvöxt og dagskrá fundarins.

[10:49]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil segja það um fundarstjórn virðulegs forseta að ég er ánægð með að forseti skuli hafa sett á dagskrá þau mál sem eru tilbúin til umræðu í þinginu. Það er mikilvægt að við sjáum hvað liggur hér fyrir þannig að við getum skipulagt vinnu okkar samkvæmt því. Ég hvet hæstv. forseta til að drífa dagskrána áfram. Það er ljóst að mikið liggur fyrir, mörg mjög mikilvæg mál sem varða hagsmuni margra. Einnig vitum við sem hér erum að mörg ákaflega mikilvæg mál sem varða meðal annars skuldir heimilanna liggja fyrir í nefndum og beðið eftir að komi til umræðu. Við skulum ekki eyða tímanum lengur í að ræða fundarstjórn forseta sem mér finnst ákaflega góð. Ég þakka fyrir hana og legg til að við drífum þingstörfin áfram.