141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

skýrsla fjármálaráðherra um hagvöxt og dagskrá fundarins.

[10:56]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, ekki hefur nokkrum manni komið til hugar að hann eða stjórnarandstaðan hafi staðið í nokkru málþófi hér síðustu mánuði. [Hlátur í þingsal.] Allra síst hefur þjóðinni komið það til hugar svo það sé bara sagt.

Ég lýsi hins vegar mikilli ánægju með það hvernig hæstv. forseti keyrir þetta mál áfram. Auðvitað get ég líka tekið undir óánægju hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar, að hér skuli ekki vera undir mikilvæg mál eins og verðtryggingarmál Framsóknarflokksins. Bíddu, frú forseti, áttu þau nokkuð að vera hér? Áttu þau ekki að vera í einhverri nefnd? En hvernig var það, var það ekki hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sem sagði hér í fyrri viku að það væri allt í plati og var eiginlega búinn að draga það til baka? Mér heyrðist það. Í öllu falli heyrist mér sem stjórnarandstaðan vilji fá að vera hér svolítið lengur. Hún er búin að biðja um tvöfalda umræðu í stjórnarskrármálinu. Hún er búin að biðja um langa umræðu um hagvöxt á Íslandi. Hún er búin að biðja um sérstaka umræðu um lögreglumálin — og hvað er að því að vera (Forseti hringir.) hér langt inn í apríl? Ég held að við eigum bara að gera það og þá getur Framsóknarflokkurinn haldið áfram í friði að tæta fylgið af Sjálfstæðisflokknum. Ég gleðst yfir því.