141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

skýrsla fjármálaráðherra um hagvöxt og dagskrá fundarins.

[11:03]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það dylst engum að forseti Alþingis hefur dagskrárvaldið. Það er hvorki hjá ríkisstjórn né einstaka þingmönnum. Það er forseti þingsins sem hefur dagskrárvaldið. Það er ákvörðun forseta þingsins að hafa þetta 41 mál á dagskrá í dag. Ég set einfaldlega út á það vegna þess að það er borðleggjandi að sú dagskrá gengur ekki eftir.

Þetta sýnir okkur betur en margt annað í hvaða ógöngur Alþingi Íslendinga er komið á lokadögum þessa kjörtímabils. Það er dapurlegt að okkur skuli ekki takast betur á þessum síðustu dögum að ljúka þessu kjörtímabili en raun ber vitni, og eilíft karp og tog um það hver segir hvað um hvað mun ekki leysa neitt. Það er ljóst að þessi 40 mál munu aldrei fara öll í gegn. Það vita allir í þessum sal.

Setjist nú niður, þið sem ráðið, farið yfir málið og klárið þetta. Hættið köpuryrðum gagnvart fólki í flokkum um að það (Forseti hringir.) lúti einhverjum stjórnum úti í bæ. Hv. þingmaður, hæstv. forseti, Álfheiður Ingadóttir, það er þér til skammar.