141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

skýrsla fjármálaráðherra um hagvöxt og dagskrá fundarins.

[11:04]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hæstv. innanríkisráðherra um það hversu ósæmilegt það er að þingmenn hér í þessum sal séu sýknt og heilagt að tala Alþingi niður. Við eigum að leggjast saman á árarnar um að auka virðingu og vegsemd þessarar mikilvægu stofnunar.

Ég las það í blöðunum um helgina að hæstv. forseti ætlaði ekki endilega að boða til þingfundar í dag nema að búið væri að koma á viðræðum og samtali milli flokkanna og farið væri að nálgast samkomulagsátt um þinglokin. Það þótti mér afar skynsamlegt, hæstv. forseti. Ég held að ef það hefði verið gert værum við einhverju nær um það hvernig við ætluðum að ljúka þingstörfunum.

Það hryggir mig að sjá þá umræðu sem hér fer fram vegna þess að hún gerir ekkert til þess að leysa þetta mál. Við erum komin þrjá daga fram yfir starfsáætlun, við erum hvergi nálægt því að vita hvaða mál eigi að klára og hvaða mál eigi ekki að klára. Ríkisstjórnin hefur (Forseti hringir.) ekkert plan. Hún er búin að gefast upp á verkefninu og það er kominn tími til að hún viðurkenni það, setjist niður með stjórnarandstöðunni og klári að fara yfir þau mál sem við getum náð (Forseti hringir.) samkomulagi um og klárað í friði og spekt (Gripið fram í.) á þessu þingi.