141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

skýrsla fjármálaráðherra um hagvöxt og dagskrá fundarins.

[11:07]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við erum í hefðbundinni stöðu að vori. Svona verður staðan þangað til búið verður að breyta þingsköpum þannig að við getum ekki rætt neitt mál hér út í hið óendanlega. Svona verður staðan þangað til við tökum upp bætt vinnubrögð varðandi samstarf milli flokka almennt, milli stjórnar og stjórnarandstöðu, og tökum mið af því sem menn gera annars staðar á Norðurlöndunum. Þangað til verður staðan sú sem við erum í, því miður.

Ég er komin hingað upp til að taka undir orð hæstv. innanríkisráðherra Ögmundar Jónassonar um að það væri mjög æskilegt að ræða hina nýju skýrslu sem komin er fram um stöðu lögreglunnar. Þessi skýrsla var unnin vegna þingsályktunartillögu sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson flutti. Að mínu mati er ekki nóg að ræða hana á næsta kjörtímabili af því að það kemur fram í inngangsorðum skýrslunnar að allir stjórnmálaflokkar hafi átt fulltrúa í þessari nefnd og rætt við embættismenn um þetta mál og telji að við gerð næsta stjórnarsáttmála næstu ríkisstjórnar (Forseti hringir.) eigi að taka mið af þessari skýrslu. Það er því gríðarlega æskilegt að ræða hana strax á þessu þingi, taka stuttan tíma í það en taka umræðuna.