141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

skýrsla fjármálaráðherra um hagvöxt og dagskrá fundarins.

[11:10]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er alltaf jafnsorgleg stund þegar líður að þinglokum. Við höfum upplifað þetta áður þegar stjórnarandstaðan byrjar að beita áhrifum sínum og yfirgangi, (Gripið fram í: Já.) þæfa mál með málþófi og koma í veg fyrir að þingræðið fái að hafa sinn gang í þessum sal. Hvar er planið? spyrja sjálfstæðismenn. Planið liggur í formi dagskrár á borðum þingmanna. Þar eru 41 mál sem við ætluðum að klára hér, (Gripið fram í.) 41 mál sem eru í forgangi, dagskrá liggur á borðum þingmanna og menn sjá hvað það er sem við þurfum að klára.

Sú krafa að það sé samið við stjórnarandstöðuna og henni fært dagskrárvaldið er í fullkomnu ósamræmi við heilbrigð og eðlileg vinnubrögð. Ég segi bara: Í guðanna bænum, hættið þessu þjarki og þrefi og tafapólitík frammi fyrir alþjóð og hættið að vera eins og ódæll (Forseti hringir.) skólabekkur. Göngum til dagskrár og förum að vinna. Þetta er ekki flóknara en það.