141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

skýrsla fjármálaráðherra um hagvöxt og dagskrá fundarins.

[11:11]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er margt búið að segja hér sem jafnvel kallar á lengingu þessarar umræðu en satt best að segja nenni ég því ekki.

En af því að hér hefur verið sagt að ekkert sé gert og stjórnarandstaðan standi gegn öllu skulum við bara líta á síðustu daga í þinginu. Þá var hér gerð að lögum veiting ríkisborgararéttar, þingsályktun samþykkt um Norðurlandasamning um almannatryggingar, síðan lög um Ábyrgðasjóð launa, breytingar á sveitarstjórnarlögunum voru samþykktar, vörugjöld og tollalög, leiðréttingalög. Það voru samþykkt önnur lög um tolla.

Þetta hefur allt gerst hér á síðustu dögum. Lög um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi voru samþykkt, heildarlög um Ríkisútvarpið, gengið frá virðisaukaskatti vegna breytinga um gagnaver og eins var reyndar mjög ánægjulegt að samþykkja þingsályktunartillögu vegna 100 ára afmælis kosningarréttar íslenskra kvenna. Þetta gerðist í þinginu á miðvikudag og föstudag, þetta eru mál sem við gengum frá í góðri sátt.

Ég ætla að biðja um það, virðulegi forseti, að menn reyni í það minnsta að halda sig (Forseti hringir.) við raunveruleikann. Þetta er það sem við höfum verið að gera og það er vel hægt að ná góðum árangri í að koma málum í gegn. En það er augljóst að miklu fleiri mál eru á dagskrá en komast í gegn. Eigum við ekki að reyna að einbeita okkur að þeim málum sem hægt er að ná samstöðu um og eru mikilvæg og vera ekki að þrefa um mál sem við vitum öll að er ekki hægt (Forseti hringir.) að klára? Er það ekki skynsamlegra verklag?