141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

skýrsla fjármálaráðherra um hagvöxt og dagskrá fundarins.

[11:14]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Ef einhver velkist í vafa um það hvort hér sé meirihlutastjórn eða ekki má minna á að þessi ríkisstjórn hefur staðið af sér tvær vantrauststillögur á þessu kjörtímabili, kannski meira að segja tvær og hálfa. Geri aðrir betur. Það er rétt um vika síðan þingið lýsti yfir trausti á ríkisstjórnina í þessum þingsal.

Virðulegur forseti. Ég velti fyrir mér hvers vegna í ósköpunum ekki sé hægt að ganga til dagskrár, hvers vegna stjórnarandstaðan vill ekki saxa á þennan lista. Gegn hvaða máli ætlar hún að berjast? Hvað á þessum lista stendur svona í stjórnarandstöðunni? Eru það opinberir háskólar? Ætlar stjórnarandstaðan að stoppa það mál? Er henni illa við að hafa það á dagskránni? Eru það almenn hegningarlög? Eru það niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar? Er það stjórn fiskveiða? Er það bygging nýs Landspítala?

Hvað af þessari dagskrá er þess eðlis að stjórnarandstaðan treystir sér ekki til að ganga til verka?

Ég vek athygli á því að þrátt fyrir þau 40 mál sem eru á dagskránni í dag (Forseti hringir.) í þinginu hefur stjórnarandstaðan lagt til þrjú ný mál til umfjöllunar, þ.e. skýrslu um stöðu (Forseti hringir.) lögreglumála í landinu, umræðu um hagtölur síðasta árs og ný þingsköp. Ég held að við ættum að fara að ganga til þessara verka og sjá hvaða mál stjórnarandstaðan ætlar að stoppa. Hvað af dagskránni vill stjórnarandstaðan að ekki verði (Forseti hringir.) rætt hér í dag?