141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

neytendalán.

220. mál
[11:20]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er varla hægt að tala um það að samþykkja frumvarp eins og þetta inn í það fjármálaumhverfi sem við búum við á Íslandi öðruvísi en kannski sem einhvers konar grín. Hér er fákeppni á fjármálamarkaði. Vaxtabreytingar eru algjörlega undir hælnum á fjármálafyrirtækjum. Það er vaxtaóreiða fyrir almenning. Áfram verður gert ráð fyrir verðtryggingu þannig að skuldir heimilanna munu áfram taka mið af verðbreytingum á tómatsósu og tannkremi. Almenningur á sér engrar viðreisnar von í baráttunni við lánakerfið. Það er dapurlegt núna fjórum árum eftir hrun að við skulum sitja uppi með frumvarp eins og þetta en ekki frumvarp sem tekur af meiri alvöru á til dæmis verðtryggingarþættinum. Það að upplýsa lántakendur um það hver verðbólgan hefur verið síðustu tíu árin er einhvers konar brandari. Mér er gjörsamlega fyrirmunað að skilja að þjóðþing nokkurrar þjóðar skuli leggjast svo lágt (Forseti hringir.) að fara út í alla þessa vinnu eftir allt sem á undan er gengið hér með hrunið.