141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

neytendalán.

220. mál
[11:37]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Við hv. þm. Eygló Harðardóttir erum með tvær breytingartillögur við 26. gr. Sú fyrri felur í sér að hámark árlegrar hlutfallstölu lántökukostnaðar fari úr 50% í 60% og að sá hluti setningarinnar þar sem segir „að viðbættum stýrivöxtum“ falli út.

Breytingartillaga okkar er sambærileg við ákvæði sem er að finna í kanadískri löggjöf. Samþykkt þessarar breytingartillögu mun tryggja að aðstæður lántakenda hér á landi líkist aðstæðum í Evrópu.

Eins og við vitum eru stýrivextir mjög sveigjanlegir þannig að það er í raun og veru ekkert þak eða neinar skorður á okurlánastarfsemi hér á landi ef við höldum stýrivöxtum inni.

Virðulegi forseti. Köllum hlutina réttu nafni og samþykkjum bæði þessa breytingartillögu (Forseti hringir.) og breytingu á nafninu um það að við séum að samþykkja breytilegt þak en ekki hámark. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)