141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

um fundarstjórn.

[11:54]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Nú er búið að koma málum þannig fyrir í umræðu um breytingartillögu sem upphaflega sneri að því að breyta breytingarákvæði stjórnarskrárinnar að fyrir liggur breytingartillaga sem inniheldur alla stjórnarskrárbreytinguna sem er búið að ræða ásamt því að nú er einnig verið að samþykkja að hér verði flutt tillaga um nýtt auðlindaákvæði. Ég hjó eftir því í málflutningi stjórnarliða áðan að það ætti að drífa þetta mál af til að komast í önnur mál. Hvað ætla stjórnarliðar og virðulegi forseti að það taki Alþingi Íslendinga langan tíma að ræða breytingartillögu um hvernig eigi að breyta stjórnarskrá Íslands, breytingartillögu sem inniheldur alla stjórnarskrártillöguna í heild og síðan nýtt auðlindaákvæði? Þetta ætla stjórnarliðar að drífa af. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Ég tel að virðulegur forseti eigi að huga að virðingu Alþingis og stöðva þessa umræðu ef þetta á að ganga svona fyrir sig. Þetta er algjörlega furðulegt og fáránlegt, (Forseti hringir.) virðulegi forseti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)